Sunnudagur, 21. desember 2008
Alexandra 10 ára í dag
Þá er þessi prinsessa bara orðin 10 ára gömul en mér finnst eins og það hafi gerst í gær að ég þurfti að hætta við að horfa á videomynd sem ég hafði leigt mér að kvöldið 20.desember árið 1998 og bruna þess í stað með Erian á sjúkrahúsið en hún missti vatnið akkúrat þegar ég var nýsestur niður í sófann og búinn að ýta á play. Myndin sem ég ætlaði að horfa á heitir Wag the dog og enn þann dag í dag hef ég ekki náð að horfa á þessa mynd af einhverjum sökum.
En stelpan var jólagjöfin okkar árið 1998 og Erian var komin með dúlluna heim bara sólarhring síðar, ekkert verið að liggja inná sjúkrahúsi of lengi því jólin voru jú handan við hornið.
Alexandrö er margt til lysta lagt, hún hefur yndi af því að teikna og föndra sem og að spila á hljóðfæri. Við vorum einmitt á tónleikum á föstudaginn þar sem þau öll spiluðu, altso öll nema Elísa sem er ekki enn farin að læra að spila á hljóðfæri. Þau stóðu sig öll frábærlega og gaman að heyra hvað þau eru orðin flink að spila
Elsku Alexandra, til hamingju með 10 ára afmælið frá okkur öllum hér heima, við elskum þig og eigðu frábæran afmælisdag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 18. desember 2008
"Einstæður" faðir í 4 mánuði, því tímabili loks að ljúka=)
18.desember í dag og nú sér loks fyrir endann á tímabili mínu sem "einstæður" faðir; Erian er væntanleg til landsins á morgun í jólafrí og svo förum við öll sömul út þann 30.desember.
Þessir 4 mánuðir hafa verið mér lærdómsríkir og vafalaust líka fyrir Erian. Það fer nú ekki mikið fyrir okkar börnum og þau eru yfirhöfuð í rólegri kantinum, eins og pabbinn=). En, það reynir oft á að vera einn með 4 börn, þau geta víst rifist og slegist eins og hundur og köttur eins og önnur börn. En að lang mestu leyti hefur þetta allt gengið vel og slysalaust hjá okkur síðustu mánuðina.
Ég segi fyrir mína parta þá hef ég fengið að upplifa þá hluti sem áður hvíldu kannski nánast eingöngu á Erian. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að verkaskiptingin væri í fínu lagi eins og hún var en sé það núna að ég hefði mátt leggja mun meira af mörkum. T.d. þetta þvottavesen, það er alveg hellings tími sem fer í að sinna honum fyrir utan all hitt eins og bara að fæða og klæða börnin, sjá um að þau baði sig og ekki má nú gleyma heimanáminu og öllu þríferíi. Alla vega þá sé ég eftir þessa mánuði að það að reka stórt heimili farsællega byggist á góðri samvinnu beggja aðila, mannsins og konunnar og það er víst að svo mun það vera hér eftir á þessu heimili.
4 mánaða aðskilnaður hefur reynst okkur öllum erfiður og tíminn oft lengi að líða; börnin auðvitað saknað mömmu sinnar og við auðvitaða saknað hvors annars. En reynslan er dýrmæt og ég er viss um að hún kemur til með að hafa góð áhrif á okkar hjónaband ef litið er til framtíðar.
Skólinn að renna í jólafrí og litlu jólin á morgun, minn síðasti vinnudagur í bili í Grunnskólanum í Sandgerði. Það eru auðvitað blendnar tilfinningar að hætta svona á miðju skólaári en tilhlökkunin yfir því að sameina fjölskylduna á ný er ofar öllu öðru. Ný ævintýri bíða handan við hornið en maður kveður gömlu vinnufélagana á morgun og sennilega mun maður sakna þeirra flestra.
En sem sagt, Erian kemur heim á morgun og þá getur jólaundirbúningur farið að hefjast hér á þessu heimili af fullri alvöru og viti. Ég hef ekki verið í miklu jólaskapi það sem af er desember en það verður væntanlega breyting þar á nú um helgina.
Læt þetta duga í bili, kveðjur bestar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 7. desember 2008
7.desember 2008
Jæja, þá er baðframkvæmdum nánast lokið og hér að ofan má sjá myndir af þessu hvernig baðið var og svo hvernig það er núna, þetta hvíta á gólfinu er fúga en ég var að setja aftur fúgu á milli flísanna á gólfinu.
Annars er allt gott af okkur að frétta, jólin nálgast og ekki nema tvær vikur í jólafrí, langþráð. Ekki er maður nú kominn í mikið jólaskap samt, það kemur sennilega þegar Erian kemur heim en hún er væntanleg þann 19.des.
Krakkarnir eru að standa sig vel í því sem þau eru að gera, bæði í skólanum, leikskólanum og svo í tónlistarskólanum. Elmar og Alexandra spiluðu á tónleikum fyrir nokkrum vikum og stóðu sig frábærlega. Alexandra spilaði svo á þjóðahátíð sem haldin var hér í Garði laugardaginn 22.nóvember og hún stóð sig mjög vel þar líka. Þau eru bara orðin svakalega flink að spila á þessa trompeta sína, en stundum er nú ekkert gaman að hafa hávaðann í þessum lúðrum í eyrunum þegar verið er að æfa sig, en maður lætur það svo sem ekki trufla sig. Sjálfur lærði ég á blokkflautu í gamla daga, kunni að lesa nótur og alles, en lagði flautunni þegar við fluttum á Skagann og hef ekki snert á hljóðfæri síðan.
Annars er manni ofarlega í huga þessa dagana ótímabært fráfall Rúna Júll,maðurinn sá var Keflvíkingur númer eitt og fráfall hans hefur stór áhrif á alla Suðurnesjamenn sem og marga aðra landsmenn. Ég afrekaði það að koma inn hjá Rúna einu sinni en þá var Orri Harðar vinur minn að vinna í stúdíói hans og ég kom þarna að sækja félagann af Skaganum. Orri átti ekki nógu sterk lýsingarorð til að lýsa mannkostum Rúna Júll og það sem maður les í blöðum nú og heyrir í fréttum þá eru allir samferðamenn Rúnars sammála um að hann hafi verið hreinn og klár öðlingur.
7.desember í dag og afmælisdagur langafa míns Einars Sveins Frímann, hann hefði orðið 125 ára í dag kallinn, merkisafmæli! Til hamingju með daginn segi ég bara.
Jæja, ætli ég láti þetta ekki duga í bili, það er yfir manni eitthvert bloggslen þessi dægrin en ég reyni að henda inn færslu við og við, ef andinn kemur yfir.
Eigið góðar stundir og ekki láta jólastressið gera útaf við ykkur.
Kveðjur bestar, Einar Sveinn og börn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Erlingur Gissurarson
Í dag var Erlingur Gissurarson borinn til grafar. Mig langaði að minnast hans með nokkrum orðum og um leið votta öllu okkar fólki út í Svíþjóð okkar dýpstu samúð.
Erlingur var giftur Erlu frænku minni og ég man fyrst eftir að hafa séð hann á Seyðisfirði árið 1975, minnir að það hafi verið árið þegar þau fluttu til Íslands eftir að Erlingur hafði verið að mennta sig í Gautaborg í nokkur ár.
Fljótlega fluttu Erlingur og Erla á Skagann, held það hafi verið 1976, og mín fjölskylda flutti svo á Skagann seinna sama ár og eftir það tókust náin kynni milli okkar og barna þeirra sem hafa haldist alla tíð síðan.
Erlingur var stríðinn maður að mér fannst og stundum var ég ekki viss hvort hann væri að fílfast í mér eða honum væri mikil alvara í því sem hann var að segja. En þá kom þetta glott á kallinn og maður vissi að hann var að gantast. Seinna áttaði ég mig á hvernig húmor Erlingur hafði, stríðinn húmor sem nálgaðist að vera kaldhæðinn á köflum, húmor sem fellur mér einkar vel að skapi og kannski ekki ólíkur mínum eiginn.
Erlingur var duglegur man ég að drífa krakkana í alls kyns hluti eins og golf, skíði og hitt og þetta sem honum datt í hug. Ég man eftir að hafa fengið að fljóta með honum og krökkum hans á skíði og við Ingi spiluðum svolítið golf á tímabili en Erlingur hafði fengið þá bakteríu. Ég á meira að segja tvær myndir af mér uppá Leynisvelli með driverinn í mikilli sveiflu, myndir sem Erlingur tók og færði mér seinna.
Seinni árin hafa Erlingur og Erla líka sýnt mér og minni fjölskyldu mikla ræktarsemi og meðal annars buðu þau hjón okkur að koma til sín sumarið 2006 með alla krakkana þar sem við gistum hjá þeim í eina 10 daga í litlu íbúðinni þeirra í bílskúrnum, held að Erlingur hafi innréttað það allt saman sjálfur og byggt svo nýjan skúr við við hliðina á húsinu. Þau hjón vildu allt fyrir okkur gera og við okkur var stjanað á alla lund, sama má segja um þau systkinin Þórunni og Ingimar, endalaust tilbúin að fara með okkur hitt og þetta og allt fyrir okkur gera. Fyrir þetta erum við afar þakklát og ferðin til Svíþjóðar var frábær í alla staði og lifir með okkur alla tíð.
Erlingur var frændrækinn hvað varðar okkar eigin fjölskyldu, bakaríisfamilíuna og ekki er langt síðan hann hringdi í mig til að rukka inn ættarmót bakaríisfamilíunnar sem til stóð að halda í Danaveldi í sumar sem leið, en því miður varð ekkert af undirbúningi hvað það varðar og því fórst það allt fyrir. En Erlingur var greinilega manna áhugasamastur um þetta og lýsir vel hans hug til fólksins hennar Erlu.
Ég vil með þessum orðum kveðja þennan höfðingja sem Erlingur var, hans er sárt saknað.
Missir Erlu og afkomenda þeirra Erlings í Svíþjóð er mikill en minning um góðan mann lifir.
Elsku Erla og fjölskylda, okkar hugur er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.
Einar Sveinn, Erian og börn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 2. nóvember 2008
Kominn heim í heiðardalinn!
Tæp vika síðan ég kom heim frá Köben og það var ekki auðvelt að segja bless á Kastrup, men sodan er livet.
Köben er borg sem heillar, ekki spurning, allt eitthvað svo innan handar þarna, virkar ekki á mann sem stór borg og andrúmsloftið er létt og hressandi ala danskt andrúmsloft.
Við hjónin áttum frábæra daga saman, alveg 5 heila og nýttum þá í að njóta samvista hvort við annað, kíktum mörgum sinnum í bæinn og þá aðallega á kaffihús og ráp á Strikinu. Reyndar allt svo dýrt þar sem krónan íslenska er jú ónýt en við leyfðum okkur að borða saman, m.a. á frábærum ítölskum stað niður á Nýhöfn.
Við heimsóttum auðvitað Margeir og familí sem hafa reynst Erian mjög vel þennan tíma sem hún hefur verið þar, yndislegt fólk þar á ferð. Þau búa steinsnar frá House of colors í stórri og fallegri íbúð niður við Amagerströnd.
Eftir þessa heimsókn þá líst mér bara vel á að fara þara með alla familíuna, lestarkerfið þarna er frábært, sérstaklega metrókerfið sem kemur þér niður í miðbæ á innan við 5 mínútum ef þú býrð á stað þar sem stutt er í metróinn.
Vinnuviðtalið gekk vel, vona að þeim konum hafi litist vel á mig, ekkert laust í augnablikinu eins og ég vissi en við ætlum að halda kontakti og þær sögðu mér að það vantaði reglulega í afleysingar, svo puttar og tær í kross.
Ég hef sent fyrirspurnir um vinnu á þó nokkra staði og bíð bara eftir því hvort einhver viðbrögð komi við slíku; mest er ég að skoða vinnu sem tengist börnum á einn eða annan máta enda það sem ég hef unnið við síðustu 13 ár eða svo. En maður skoðar allt, aðalmálið er að fá innkomu sem fyrst, allt í lagi þó það verði afleysingajobb, við höfum jú námslánin hennar Erian en við verðum að fá einhverja innkomu líka frá mér.
Íbúðin er frátekin, okkar altso, því Hanna Stína og Elvar sonur hennar virðast harðákveðin að leigja af okkur og erum við sæl og glöð að fá fólk sem maður þekkir til. Sjálf erum við búin að semja við Margeir að fá að vera í einni af íbúðunum hans í House of colors fyrsta mánuðinn, svona á meðan við náum áttum og vinnumál mín skírast eitthvað. Enn reynast Margeir og familí vinir í raun og erum við afar þakklát þeim fyrir allt sem þau hafa gert fyrir okkur í þessu brölti.
Annars teljum við niður til jóla því þá kemur Erian heim þvi við höldum jólin hér heima og svo bara skellum við okkur út strax um áramót. Reyndar er það á plani að Erian komi eina helgarheimsókn hér í nóvember, annars sjáumst við ekkert í 9 vikur og það er meira en við hreinlega þolum. Auðvitað dýrt að vera að koma svona í heimsókn en hverrar krónu virði.
Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég er búinn að versla svona það mesta í baðherbergið og nú í vikunni er meiningi að leggja flísar á gólf og setja upp sturtuklefann. Get bara ekki lýst því hvað það verður gott að geta baðað sig hér heima aftur eftir nokkrar vikur án alls nema klósetts! En dýrt er dæmi og miklu dýrara en okkar áætlun hljóðaði uppá, mest um munar viðgerð á veggjum og það efni sem ég setti á þá.
Svona í lokin þá langar mig að biðja þá sem koma hér við og lesa að skrifa í athugasemdir, ég er forvitinn að vita hverjir lesa; það er svona skemmtilegra að kannast aðeins við hópinn sem kikkar hér við.
En kveðjur bestar frá okkur hér, mér og börnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 26. október 2008
Nýjar myndir á myndasíðunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 25. október 2008
Enn í kóngsins Köbenhavn
Þá er komið laugardagskvöld og ég enn í góðu yfirlæti hér í Köben.
Í gær, föstudag, fórum við hjónin í bæinn. Fórum snemma af stað eða um 1 leytið og fyrst var förinni heitið til Hellerup þar sem ég fór í viðtal í skóla þar sem heitir Copenhagen international school. Þetta er skóli sem útlendir diplómatar og bissnessmenn senda börn sín í og eru skólagjöld himinhá, held þetta sé dýrasti einkaskóli landsins.
Ég sótti um vinnu þarna í sumar sem aðstoðarkennari en dró umsóknina til baka. Við töluðum samt um að halda kontakti og þegar ég ákvað að fara í stutta heimsókn hingað til Erian þá setti ég mig í samband við skólann aftur og ákveðið var að ég kæmi í stutt viðtal ef ske kynni að það myndi eitthvað losna þarna í framtíðinni. Það er sem sagt ekkert laust í augnablikinu en alltaf vantar afleysingafólk og það er vel möguleiki að komast að í slíkt.
Viðtalið gekk annars vel og mér líst mjög vel á skólann. Vinalegt fólk þarna og konurnar sem tóku viðtalið við mig ætla að láta umsjónarmann á miðstigi hafa alla mína pappíra og svo á ég bara að láta vita þegar ég er fluttur með allan barnaskarann til Erian hér í Köben. En maður verður bara að hafa alla anga úti í atvinnuleitinni, ætla að athuga með störf á leikskólum og annað sem kemur til greina. Alla vega er ljóst að ég verð að fá vinnu nánast um leið og ég lendi því ekki lifum við á námslánunum hennar Erian eins og mál standa núna með krónuna.
Við tókum svo góðan labbirúnt í bænum í gær og fórum m.a. á kínverskan veitingastað í hlaðborð og var einkar gott að borða þarna og við södd langt fram eftir kvöldi. Reyndar var ekkert spes veður í labb í gær því það mígrigndi og vorum við eins og hundar á sundi þegar heim kom um 6 leytið; höfðum þá verið á ferðinni 5 og hálfan tíma eða svo.
Í dag fórum við svo aftur á stjá og tókum metróinn um hádegisbil niður á Kongens Nytorv. Löbbuðum okkur svo niður á Nyhavn og stoppuðum á ítölskum veitingastað og fengum okkur að borða. Dýrt var það maður minn ef maður miðar við ónýta íslenska krónu en hverrar krónu virði, alveg einstaklega góður matur þarna.
Á næsta borði við okkur voru Svíar í eldri kantinum og voru nokkuð við skál (reyndar með ólíkindum hvað maður verður var við marga Svía í bænum, mér fannst ég heyra sænsku oftar en dönsku mest megnis í dag, Svíar út um allt bókstaflega). Einn í þeirra hópi var hávær og síblaðrandi og svo skellti hann uppúr endalaust með þessum líka hrossahlátri. Svo tók nú steininn úr þegar sá háværi fór að gera grín að Íslendingum og íslenskri krónu því hann var að gantast við þjóninn um að borga með íslenskum krónum og þótti þetta stand á okkur allt rosalega fyndið. Já, gott að okkar auma ástand létti sumum lund; ekki það við eigum þetta sennilega bara skilið, altso að það sé gert grín af okkur út í eitt vegna þessara aumu útrásarmanna sem sett hafa land og þjóð á hausinn.
Reyndar gerðist það líka á miðvikudagskvöldið þegar við Margeir fórum á Hvítan að létt grín var gert að þessu íslenska ástandi. Við fórum á Hviids vinstue sem sagt og á barinn og pöntum 2 kók! Einn góðglaður Dani var við barinn spurði hvort við værum Íslendingar sem við játtum og þá kom hjá baunanum, "eruð þið vissir um að þið hafið efni á að setja klaka út í kókið" og ég verð nú að viðurkenna að þetta fannst mér fyndið og við Margeir hlógum eins og vitleysingar að þessu og bauninn hló líka vel og innilega.
Svo þessi mál heima eru á flestra vitorði að manni finnst, enginn að hreyta neinu í mann, bara verið að gera grín að okkar auma standi og maður verður bara að hafa húmor fyrir því. Svíinn fulli fór bara í taugarnar á manni því hann var fullur og leiðinlegur, annars hefði ég kannski séð spaugilegu hliðina á þessu hjá honum.
Hvað um það, við röltum svo að Amalienborg og tókum nokkrar myndir, kíktum í kirkju og svo röltum við aftur niður á Nýhöfn og fengum okkur cappucino.
Svo röltum við Strikið og kíktum í búðir og maður minn það er sko allt dýrt hér en búðirnar eru flottar og mikið af fólki í bænum, mikið mannlíf og gott veður í þokkabót. Fórum i ísbúð þar sem bara er seldur Ben and Jerry´s ís, og ekki klikkaði ísinn.
Á heimleiðinni stoppuðum við svo í Fötex og keyptum það sem okkur vantaði í ísskápin. Vorum svo að enda við þessa fínu nautasteik sem Erian eldaði, alveg hreint ljúffengur dinner og nú liggjum við bara á meltunni og ætlum að hafa það kósí og huggó fyrir framan imbann það sem eftir lifir kvölds.
Kveðjur bestar úr landi baunans,
Einar Sveinn og Erian
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Í Köben í 5 daga
Flaug til Köben í gær miðvikudag en fer heim aftur á mánudaginn.
Þannig eru mál vaxin að það er haustfrí í skólanum hjá mér, og reyndar krökkunum mínum líka í Gerðaskóla, svo ég skellti mér til Erian í heimsókn en amma Beta er heima að passa börn og hund. Gott að eiga svona góða ömmu sem er tilbúin að koma og sjá um heimilið í heila 5 daga á meðan pabbinn skellir sér í heimsókn til mömmunnar.
Hvað um það, ég lenti hér um 6 leytið í gærkvöld og vélin meira að segja 20 mín á undan áætlun. Ekki það skemmtilegasta sem maður gerir að fljúga, verkur í afturenda og svo líka í fótum eftir að hafa setið þarna eins og síld í tunnu í hátt í 3 tíma.
Á vellinum beið mín ástkæra eiginkona og við tókum metróinn beint heim þar sem Erian býr, það tekur ekki nema 5 mín að fara frá flugvellinum og heim til hennar á Amager.
Margeir kom svo hér um 8 leytið og við félagarnir skelltum okkur í bæinn á kaffihús. Erian og Hafdís, kona Margeirs, ætluðu með en svo þurfti Erian að læra fyrir próf, sem var í morgun, og Hafdís var eitthvað hrædd við kuldann og var bara heima. En við fórum þá bara tveir í staðinn og fórum fyrst á Kóngsins Nytorv og kíktum á Hvids vinstue og drukkum kók (kaffið er víst ódrekkandi þarna). Mig hefur lengi langað að kíkja á Hvítan því þarna sat Jónas Hallgrímsson skáld löngum stundum og drakk sinn öl fyrir einum 170-180 árum síðan. Húsið er byggt 16 hundruð og súrkál og staðurinn nánast eins og hann var þegar Jónas og fleiri íslenskir stúdentar voru þarna á ferð árum áður.
Við röltum svo í rólegheitunum niður á Nýhöfn og fundum þar kaffihús sem bauð upp á þetta líka fína cappucino og þar sátum við drykklanga stund.
Svo röltum við uppá Strikið og inná Nörreport þaðan sem við tókum metróinn aftur heim í heiðardalinn.
Gaman að kíkja hér í bæinn á miðvikudagskvöldi, sitja úti og drekka kaffi og það í lok október, þetta vantar alveg heima.
Í dag er Erian í skólanum en ég er bara að gaufa hérna einn heima og bíð eftir að hún komi heim. Svo á morgun fer ég í viðtal í skóla hér í bæ, Copenhagen international school. Það er ekkert laust starf þarna núna en ef ske kynni þá er viðtalið frá og ég get bara sent inn umsóknina; ég sótti um þarna í sumar en dró þá umsókn til baka en við ákváðum að vera í sambandi og þeir vilja hitta mig alla vega svo maður vona bara að eitthvað komi út úr þessu fyrr en seinna.
Veðrið hér er yndislegt, 10 stiga hiti og logn og fínt að spássera úti. Við hjónin tökum örugglega eitthvað labb á eftir og svo spókum við okkur í borginni á morgun og alla helgina væntanlega.
En kveðjur bestar frá Köben,
Einar Sveinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 15. október 2008
Sæludagar!
Erian kom heim á föstudag og verður hérna hjá okkur þangað til á mánudag en þá fer hún aftur í skólann sinn í Köben. Reyndar er útlit fyrir námsmenn erlendis svart þessa dagana og fólk getur ekki einu sinni millifært af íslenskum reikningum á dönsku reikningana sína. En, þetta ástand getur varla varað að eilífu og vonandi að allt verði komið í þolanlegt lag fyrir næstu mánaðamót.
Erian var komin með flensu áður en hún lagði í hann frá Köben og kom hér stútfull af kvefi og beinverkjum. Þetta var nú allt að lagast á sunnudeginum en þá tók ekki betra við því um nóttina vaknaði hún við verki í kvið og blóð í þvagi. Daginn eftir fékk hún tíma á heilsugæslunni hér í Garði um hádegisbil en um morguninn fór henni að líða afar illa og um hádegisbil gat hún ekki gengið vegna verkja.
Ég brunaði því heim úr vinnu og við beint á bráðamóttökuna í Reykjanesbæ og viti menn, mín kona bara komin með þessa svakalegu þvagfærasýkingu sem leiddi alveg upp í nýru og einmitt það að þetta var komíð í nýrun varð til þess að hún var hér í keng og gat ekki gengið.
Erian fékk einhver töfraverkjalyf og lagaðist ástandið nokkuð við það og svo bara sýklalyf sem eru svona hægt og bítandi að byrja að verka og hún að lagast. Reyndar fór hún í myndatöku á nýrum til að útiloka að þar væru nýrnasteinar og kom allt vel út úr þvi, ekkert að í nýrum sem betur fer.
Þannig að þetta er búið að vera hálf skrautleg heimsókn hingað til en vonandi að seinni hluti vikunnar verði án veikinda og sýkinga.
Annars gengur allt sinn vanagang, krakkarnir rosa ánægðir að hafa loksins mömmu hjá sér í nokkra daga og sjálur er ég himinlifandi að hafa loksins konuna mína hjá mér í nokkra daga.
Við erum svo bara að undirbúa það að flytjast öll til Köben í janúar, það skal ganga hvað sem tautar og raular, fjölskyldan á að vera sameinuð og vera saman, alltaf ef þess er nokkur kostur.
Ég fer svo til Köben í næstu viku og fer í vinnuviðtal í skóla þar í borg föstudaginn 24.okt, vona að þeir bjóði mér bara vinnu, þó ekki væri nema afleysingar til að byrja með. Þetta er skóli sem kennir á ensku og heitir Copenhagen international school.
Stutt í helgina og við ætlum sko bara að hafa það kósí hjónakornin þennan seinnihluta heimsóknarinnar, liggja í sófanum og borða gúmmelaði og horfa á eitthvað skemmtilegt í imbanum, svo er matarboð hjá pabba framundan.
En kveðjur bestar,
Einar Sveinn, Erian og börn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 5. október 2008
Smá blogg
Sunnudagur og rétt að hripa nokkrar línur.
Úti rignir, gott að fá hana eftir snjókomuna og frostið í vikunni sem leið, en í gær var þessi brakandi blíða líka, bara sól og fuglar sungu í heiði og krakkarnir heillengi úti við í gær að leika sér.
Nú situm við hinsvegar yfir heimanámi, tekur nú fljótt af að afgreiða Elmars heimanám og Alexandra er svo sjálfstæð að hún gerir sitt bara á eigin spýtur en við Gummi þurfum að puða yfir þessu á annan klukkutíma. Nú liggur greyið kallinn yfir einhverri orðflokkagreiningu, greina orðflokk, kyn, tölu og fall og mesta furða hvað hann getur bara sjálfur í þessu.
Sjálfur er ég með feitan bunka í töskunni af stafsetningaræfingum og öðru góðgæti sem ég þarf að fara yfir, er bara engan veginn að nenna því. En, dríf mig í þetta eftir hádegi, þegar heimanámi barnanna er lokið.
Enginn smiður mættur hjá okkur enn, svo við búum við það að gera þarfir okkar í þvílíkri fúkkalykt að það liggur við að það líði yfir mann á kamrinum. Reyndar lofaði hann að koma eftir helgi og ég ætla sko rétt að vona að hann standi við það.
Nú líður að því að Erian komi til okkar í frí og við erum sko farin að hlakka til að fá hana til okkar. Stoppar alveg 10 daga og við ætlum bara að njóta þessara daga, saman sem fjölskylda á ný.
Næsta vika handan við hornið og vonandi verður þessi vika betri í íslensku efnahagslífi en sú síðasta og krónan bara verður að rétta sig af, annars er t.d. afar erfitt fyrir námsmenn eins og Erian að hreinlega lifa af á þessum blessuðu lánum. En ég hef fulla trú á að þetta lagist og verður komið réttara ról á þessi mál þegar við förum til Köben í janúar, það bara verður að gerast.
En læt þetta duga að sinni, heimilisverkin bíða sem og skólavinna.
Kveðjur bestar
Einar Sveinn og börn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Uþþuþvuzz!
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar