Fimmtudagur, 31. júlí 2008
Bjarki Frímann 15 ára
Innilegar hamingjuóskir á afmælisdaginn þinn elsku Bjarki frændi, vonandi áttu góðan dag í keilu og svo hlýtur að vera Piccolo á eftir?!
Bestu kveðjur frá okkur öllum,
Einar Sv, Erian og krakkarnir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 27. júlí 2008
Hannas fødselsdag!
Frænka okkar, Hanna "danska" Rut Anderson á afmæli í dag, 3 ára pæjan.
Elsku Hanna Rut, innilega til hamingju með daginn, ástar og saknaðarkveðjur frá okkur öllum í Silfurtúninu, vitum að dagurinn hefur verið frábær hjá þér.
Annars er þetta merkilegur dagur fyrir ýmsar sakir í okkar fjölskyldu fyrir utan afmæli "dönsku" drottningarinnar!
Þennan dag árið 1977 lést afi Hilli bakari, 63 ára að aldri, langt fyrir aldur fram.
Afi var merkilegur kall. Í minni minningu hafði hann einkum mjög þægilega nærveru, ekki maður margra orða en afar hlýr og ljúfur.
Svo hlýtur afi að hafa skartað einhverri mestu þolinmæði og umburðarlyndi sem nokkur maður getur hafa haft því oft var stór og mikill barnaskari að þvælast fyrir í bakaríinu. Aldrei var maður samt fyrir þeim gamla þó mikið væri að gera, hann hafði lag á því að finna verkefni fyrir okkur rollingana og maður sótti mikið í bakaríið í félagsskap þeirra afa og ömmu.
Þennan sama dag árið 1984 lést svo afi minn í föðurætt, Einar Sveinn Pálsson (sem ég er nota bene skýrður eftir) einnig fyrir aldur fram en hann var að verða 68 ára þegar kallið kom.
Afi Pálsson var vélstjóri að mennt og sigldi lengi vel á fraktskipum og var langdvölum að heiman og því missti maður mikið af honum ef svo má segja.
Afi var afar hress kall, hrókur alls fagnaðar og þegar hann kom í land var það venja að fjölskyldan hittist heima hjá afa og ömmu. Þá fengum við systkinin kók og kitkat (klikkaði aldrei) en hinir fullorðnu fengu eitthvað annað
Afi Pálsson var eins og afar eiga að vera, spillti sínum barnabörnum með dekri eins og vera ber!! En, maður lærði að meta það sem fyrir mann var gert og ég var afar ánægður með kallinn þegar hann keypti fyrir mig DBS hjólið mitt og svo sá hann líka um að guttinn fengi réttu græjurnar í fermingargjöf.
Ég heyrði ekki alls fyrir löngu skemmtilega sögu af Einari Sveini Pálssyni. Þannig var nú að hann var þekktur á Héraði fyrir sína léttu lund og svo var hann afbragðs söngmaður og eftirherma auk þess að kunna mýgrút af kvæðum og vísum.
En sagan var einhvern veginn þannig að kona nokkur á Egilsstöðum hafði legið lengi í rúminu mikið veik og var eitthvað í kjallaranum sálarlega. Til að létta konunni lund og hressa við var ákveðið að ná í Einar Pálsson og hann fenginn til að færa konunni smá ljósgeisla í tilveruna. Þetta segir manni hvernig maður hann, léttur í lundu og glaður á góðri stund, það var afi.
En nóg um það í bili, skemmtileg tilviljun að Hanna Rut skuli hafa fæðst á dánardegi þessara heiðursmanna og svo verð ég að geta þess að Mikael á afmæli á dánardegi ömmu Ellu, alveg einstakt að mér finnst, veit bara á gott fyrir blessuð börnin.
Kveðjur bestar, Einar Sv og familí
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Elísa 5 ára 22.júlí 2008
Litla prinsessan á heimilinu á afmæli í dag, 5 ára stelpan.
Hennar biðu nokkrir pakkar þegar hún vaknaði en svo förum við á eftir og kaupum eitthvað handa henni frá okkur hér heima og svo eitthvað frá ömmu Gósu.
Stelpan stækkar og þroskast á eldingarhraða að manni finnst, stutt síðan hún var með bleiju og pela.
Hún er ákveðin dama enda þarf maður að vera það þegar mann er yngstur á stóru heimili, hér ráðskast enginn með fröken Elísu, frekar að hún ráðskist með aðra fjölskyldumeðlimi ef eitthvað er.
Það eru svo sem engin stóráform í tilefni dagsins en Elísa pantaði pizzaveislu í kvöldmatinn og svo er risa rjómaterta á eftir, umm,nammigott. Úti er lítið spennandi veður og krakkarnir bara heima að leika í tölvunni og svo dunda stelpurnar sér við að teikna og lita. Það er engin afmælisveisla sem slík nema bara við hér heima en Elísa fékk veislu í leikskólanum áður en hann fór í sumarfrí og það var mikið fjör og gaman.
Annars bara rólegheit, Erian því miður að vinna en fær að fara aðein fyrr heim í tilefni dagsins.
Elsku Elísa okkar, til hamingju með 5 ára afmælið. Þetta er dagurinn þinn og hann verður örugglega frábær.
Bestu kveðjur til allra og takk fyrir góðar afmæliskveðjur og pakka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 20. júlí 2008
Sunnudagur til sælu!?
Það hefur verið frekar rólegt hér á bæ um helgina, sólríkt þangað til í dag en fremur kalt samt nema í góðu skjóli.
Fórum smá rúnt í gær öll fjölskyldan og Lóla með auðvitað. Keyrðum fyrst inn í Keflavík og keyptum okkur ís með dýfu en ókum svo sem leið lá í átt að Sandgerði og stoppuðum aðeins í Rockville þar sem menn og hundur fengu sér frískt loft.
Já, það var frekar napurt þarna á heiðinni svo við stoppuðum stutt og drifum okkur í hlýjuna í bílnum.
Síðan fórum við aðeins út á Hvalsnes en þar er fallegt um að litast og gott útsýni til allra átta. Áður en heim var haldið keyrðum við aðeins um Sandgerðisbæ og við hjónin erum sammála um að bærinn sé betur skipulagður en Garðurinn og fallegri ef hægt er að tala um fallegt þegar þessir staðir eru annars vegar! Alla vega eru fiskverkunarstöðvar Sandgerðinga allar á einum og sama stað í bænum eða við höfnina og þar í grennd.
Hér í Garði liggja þessar verksmiðjur eins og hráviði um allan bæ eins og sumir vita af eldri skrifum hér, tjaldað umhverfis bæinn öllum til ama, leiðinda og óyndisþefs.
Við höfum verið laus við skítalyktina síðan á vordögum enda Baldvin Njálsson búinn að rífa niður sína skreið. En viti menn, við Erian fórum í göngutúr með Lólu í dag í niðurdrepandi veðri, sunnan eða suðvestan strekkingur og dimmt yfir öllu, hálfgert þunglyndisveður og fór að rigna á okkur á heimleiðinni. Og einmitt á leiðinn heim með vindinn í fangið barst þessi líka ferlega skítalykt að vitum okkar; veit ekki hvort helv.. hann Baldvin er aftur kominn með skreið á hjallana en óþefurinn var ferlegur.
Í vor skrifaði ég bæjarstjóra bréf útaf þessu og fékk aldrei nein svör en í pirringi mínum setti ég saman þessa ferskeytlu hér, minnir að ég hafi nú ekki sett hana hér áður:
Baldvin Njálsson aftur er
úldinn fisk að verka,
leggur yfir skaga og sker
skítafýlu sterka.
Já, det er dejligt í Garður, furða mig á því að maður skuli velja sér svona stað til að búa á og í sannleika sagt þá sé ég okkur nú ekki skjóta rótum hér.
Annars allir í góðum gír hér, afmæli hjá Elísu á þriðjudag, verður 5 ára daman og hlakkar mikið til. Blogga kannski aftur þá í tilefni dagsins en þangað til, góðar stundir og kveðjur bestar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 16. júlí 2008
Góða veðrið
Þessi mynd var reyndar tekin í júní en veðrið undanfarið hefur verið frábært, reyndar einhverjir rigningardagar en það var nú nauðsynlegt að fá smá rigningu.
Krakkarnir eru alla vega búnir að vera duglegir að vera úti, strákarnir mikið í tennis en stelpurnar leika sér nú mikið saman, eru með dúkkurnar sínar úti og svo er Alexandra duglega að hjóla og Elísa hjólar með á litla þríhjólinu sínu.
Meira að segja Elmar Ingi hjólar nú eins og vitlaus maður, hann hefur hingað til lítið vilja koma nálægt hjólreiðum en nú er hann kominn á bragðið og alltaf úti að hjóla.
Annars er bara frekar rólegt á þessu heimili. Fer út með hundinn tvisvar á dag, stundum niður í fjöru og þá er sko fjör hjá tíkinni, hljóp út í sjó um daginn og synti eins og selur.
Erian er byrjuð að undirbúa skólaævintýrið í Köben, búin að sækja um námslán og borga staðfestingargjald í skólann. Nú er bara verið að leita að herbergi til leigu, hún getur jafnvel fengið herbergi til bráðabirgða á þessu gistiheimili hér http://www.lavilla.dk/, eigum enn eftir að heyra aftur frá konunni sem rekur þetta uppá að vita hvað hún vill leigja herbergið á. En þetta yrði til bráðabirgða á meðan Erian finnur sér varanlegt húsnæði, t.d. á einhverju kollegíinu.
Aðeins að fótbolta. Skagamenn halda áfram að spila eins og fáráðlingar, endalaus varnarkerfi sem Guðjón Þórðar stillir uppí, jafnvel gegn minni spámönnum eins og Grindjánavík er lagt upp með 5 í vörn. En ekki vinnast leikir og staðan orðin erfið og einhver skítamórall í kringum þetta allt. Ég er eiginlega kominn á þá skoðun að tími Guðjóns hafi verið liðinn fyrir löngu, jafnvel fyrir nokkrum árum og mistök að fá hann aftur; eðlilegra og skemmtilegra hefði verið að leyfa boltatvíbbunum Arnari og Bjarka að halda áfram með eftir árangur þeirra síðla sumars 2006, þá gerði liðið góða hluti og spilaði skemmtilegan bolta undir stjórn tvíbbana.
Reynismenn í Sandgerði eru líka mitt lið og ekki er hærra risið á þeim en á mínum mönnum á Skaganum. Ég botna ekki í þessum þjálfara sem þar er, hvernig hann stillir upp sínu liði og eitthvað eru menn farnir að ókyrrast vegna gengi liðsins. í gær tapaðist leikur gegn ÍR, samt spilaði liðið miklu betur en í síðasta leik sem ég sá gegn Gróttu.
Í gær óðu Reynismenn í færum en fóru illa að ráði sínu og í stöðunni 1-1 gáfu þeir hreinlega tvær vítaspyrnur með nokkurra mínútna millibili, sami maður að brjóta mjög klaufalega af sér eftir klafs í teig úr hornspyrnu. Áhorfendur voru reyndar flestir á að þetta hefðu ekki verið víti, hvorugt en blákalt þá held ég að dómarinn hafi bara haft rétt fyrir sér.
Einn fyrrum Reynismaður, Hafsteinn nokkur Helgason, sagði mér í gær að 2 leikmenn sem oftast væru í byrjunarliði hefðu ekki náð á bekkinn í þessum leik, þetta voru þeir Stefán Arnarson og Óli Ívar, báðir góðir og traustir leikmenn. Hafsteinn sagði ástæðu þjálfarans vera, eða svo heyrði hann, að þessir menn hefðu verið eitthvað slakir í upphitun í leiknum þar á undan, ekki tekið hana nógu alvarlega og því væri þeim refsað með þessum hætti. Mikið dómadags rugl, sjaldan heyrt fáránlegri ástæðu fyrir því að menn væru settir út úr liði og bara út úr hóp.
Hvað um það, Reynismenn í botnbaráttu og verða að fara að hala inn stig, sjáum hvað setur á föstudag, þá er næsti leikur og það á heimavelli, ætli maður kíki ekki aðeins á það, alltaf gaman að fara á völlinn.
Blíðu kveðjur af Suðurnesjum,
Bloggar | Breytt 17.7.2008 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 11. júlí 2008
11.júlí
11.júlí í dag og þessi pæja á afmæli, til hamingju með daginn frænka, mágkona og systir, hefur ekkert breyst frá því þessar voru teknar!!
Ég hef legið í bloggleti síðustu vikur, bara ekki haft mig í að setja nokkuð á blað enda ýmislegt í gangi þessa dagana.
Hér fyrir sléttri viku hringd frændi minn og nafni Einar Sveinn Jónsson og var staddur eins og strandaglópur inn á bílastæði Samkaupa! Spurði sveinninn hvort ég ætti nokkuð tök á að sækja hann og splæsa í eins og einn bolla af eðalkaffi. Kappinn var á leið til Boston daginn eftir, bara stutt stopp hér á klakanum til að redda passamálum svo hann kæmist nú heilu og höldnu til þeirra Bush og félaga í ðe júnæted steits
Við nafnar vorum góðir vinir í denn, eða hann var svo almennilegur að leyfa litla frænda að djöflast í kringum sig þegar við vorum pollar á Seyðó.
Einar Sveinn "stóri" (ég var oftast kallaður sá litli þegar við vorum saman, svona til að skilja okkur að) er 2 árum eldri en ég og ég leit mjög upp til hans þegar ég var að alast upp sem ungur drengur í firðinum fagra.
Eitt og annað af því sem ég apaði eftir nafna mínum hefur haldist við mig og nægir að nefna að ég held með Leeds af því að nafni hélt með þeim og ég hlustaði á alla þá tónlist sem frændi minn hlustaði á, nægir þar að nefna Bob Marley en ég hlusta mikið á hann enn í dag sem og gott reggae yfirhöfuð. Held ég hafi líka stigið mín fyrstu skref á fótboltavellinum í fylgd nafna míns og frænda, fékk að æfa með strákunum sem voru eldri en ég, maður var jú eins og frímerki fast í botninum á frænda! Ég er þakklátur frænda að hann nennti að leyfa mér að vera með, betri fyrirmynd er ekki hægt að hafa og ég verð ævarandi þakklátur honum að ég er Leedsari en ekki eitthvað annað
Það var svakalega gaman að sjá framan í nafna eftir langan tíma, við höfum ekki verið nógu duglegir að viðhalda vinskapnum en kannski bætum við bara úr því héðan í frá, væri gaman að kíkja í eins og eina Þýskalandsheimsókn við tækifæri.
Að öðru.
Við erum búin að velta skólamálum Erian fyrir okkur fram og til baka, það er kominn tími á að hún mennti sig og hún hefur tekið þá ákvörðun að læra snyrtifræði.
Erian sótti um í skóla í Kópavogi, Snyrtiakademíunni en fékk afsvar, fær ekki skólavist nema taka eitt ár í fjölbraut fyrst. Þótti henni þetta súrt í broti enda er málið að þeir í akademíunni vilja að hún taki áfanga í íslensku, stærðfræði og eitthvað sem kallast Lol (lífefna og lífeðlisfræði held ég það heiti), auk annarra greina, nám upp á eitt ár.
Því fór mín kona á stúfana og lá beinast við athuga slíkt nám í Danmörku. Í stuttu máli þá gerðust hlutir mjög hratt, hún sendi fyrirspurn á skóla í Köben sem heitir CIDESCO sem er viðurkenndur á alþjóðavísu og þykir bara nokkuð gott að hafa próf frá þeim í þessum geira. Nokkrum dögum eftir að hafa sett sig í samband við skólann kom bara boð um viðtal, hvort hún gæti skroppið til Köben og kíkt á skólann og snakkað aðeins við þá þarna. Hún dreif sig bara strax af stað og er nýlega komin úr stuttri Köbenreisu.
Hún heim með pappíra upp á að henni hefði verið boðin skólavist, einungis beðið eftir því að hún greiddi part af skólagjöldum til staðfestingar.
Nú hefur hún gert það og það er ákveðið að mín kona fer í CIDESCO skólann í haust, og það bara alein því við hin ætlum að vera heima, alla vega fyrsta kastið. Við erum búin að gæla við það að fara öll núna í haust en eftir miklar vangaveltur þá urðum við ásátt um að hún færi bara ein til að byrja með, sjáum svo til með framhaldið í rólegheitum.
Fyrirvarinn er mjög stuttur og ég bara treysti mér ekki alveg strax í þessa þeytivindu sem að svona flutningur er, til þess er of lítill fyrirvari til að era hlutina skipulega og yfirvegað. Einnig tókum við í dæmið að það eru örfáir hlutir fjárhagslega sem þarf að laga aðeins til að auðveldara sé að fara af stað í flutning með hele familíen, skammtímaskuldir sem þarf að losa um því annars yrði þetta andskoti erfitt til að byrja með.
En við ætlum bara að hafa þetta opið, sjá hvernig þetta gengur, ég hef 3 mánaða uppsagnarfrest í minni vinnu þannig að það er ekkert útilokað að við förum út á einhverjum tímapunkti í vetur öll eða þá næsta sumar eftir að skóla lýkur hér.
Þetta verður auðvitað enginn dans á rósum en við látum það ganga. Við vorum lengi vel að gæla við það að hún myndi byrja seinna í náminu en Erian er tilbúin núna og sameiginlega ákváðum við að þetta væri skást núna í stöðunni.
Erian er búin að senda inn umsóknir um húsnæði á svona kollegí eins og það er kallað en þar er hægt að fá leigt fyrir rúmar 2 þúsund danskar, reyndar er hún á biðlista en vonandi gengur þetta upp bara.
Svo, við bara ímyndum okkur að hún sé farin á salt til Grænlands, 3 mánaða túr og ég er heima á meðan og gæti bús og barna
En, orðið gott að sinni,
Kveðjur bestar,
Einar Sveinn og familí
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 7. júlí 2008
Nýlegar myndir á myndasíðunni
Ég hef ekki nennt að blogga, er alveg andlaus í þeim málum þessi dægrin en Erian er búin að setja inn myndir frá sumarhátíð leikskólans og líka frá Köbenferð hennar og Alexöndru.
Kveðjur bestar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. júní 2008
Afmæli
Þá er hún Eva Margrét frænka okkar komin á táningsaldurinn, formlega, var held ég orðin smá táningur fyrir löngu síðan
Og svo bara á þriðjudaginn á Mikael yfirfótboltaséní afmæli og verður 10 ára guttinn. Svakalega er tíminn fljótur að líða, stutt síðan þessir krakkar voru bara í bleiju.
Elsku Eva og Mikael, við hér á Silfurtúninu sendum ykkur kærar kveðjur í tilefni afmælanna, vona að þið eigið frábæran afmælisdag, erum með ykkur í anda í afmæliskaffinu.
Kv, Einar Sveinn, Erian, Gummi, Alexandra, Elmar Ingi og Elísa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 25. júní 2008
Nei, ekkert að frétta, sama gutl í sama nóa
Það er bara ósköp lítið af okkur að frétta nema þá helst allt gott eða þar um bil.
Erum nýbúin að vera 3 nætur í bústað á Flúðum í sumarhúsi sem Kennarasamband Íslands á, glænýtt 70 fm hús, frábært hús alveg hreint.
Staðurinn er yndislegur, yfirleitt gott veður, gróið svæði og stutt í margar perlur Íslands eins og Laugarvatn, Skálholt, Geysi, Gullfoss og hver veit hvað.
Annars fórum við ekki mikið um svæðið í þetta sinn, eyddum mestum okkar tíma í rólegheitum í bústaðnum, t.d. í pottinum.
Við höfum farið svo oft á Flúðir og tekið þennan hring um svæðið 1-2 sinnum svo við héldum okkur bara "heima við" í þetta sinn. Reyndar fórum við í Skálholt, áttum erindi í apótekið á Laugarási og kíktum í Skálholt í leiðinni.
Í Skálholti er lítið safn í kjallaranum þar sem m.a. er að finna steinkistu Páls Jónssonar biskups sem lést 1211. Kistu þessa gróf upp úr kirkjugólfinu Kristján nokkur Eldjárn í kringum 1950 og þykir kistan einn merkasti fornleifafundur landsins fyrr og síðar. Einnig voru þarna nokkrir eldgamlir legsteinar gamalla biskupa, t.d. Hannesar Finnssonar og voru þeir frá því um 16-17 hundruð. Við hlið skálholts eru svo rústir sem verið er að vinna í og úr kjallara kirkjunnar liggja göng til rústanna, æfagömul að sjálfsögðu.
Ég hef voðalega gaman af öllu svona, því eldra því betra fyrir minn smekk og mér fannst merkilegt að sjá þessa ævafornu steinkistu sem er í merkilega góðu ásigkomulagi. Þess má geta að í kistunni voru bein séra Páls og vita menn fyrir víst að þetta var þessi maður því um þessa kistu er rækilega fjallað í eldgamalli skruddu sem til er um Skálholtsstað.
Annars er Erian að vinna og ég í sumarfríi, já ekki að spyrja að þessum kennurum, alltaf í fríi.
Fórum á sumarhátíð leikskólans hér í hádeginu og var það alveg frábært. Í boði var andlitsmálun, hoppukastalar, grillaðar pylsur/pulsur, sápukúludót handa öllum og svo auðvitað gott veður og jú, kaffi handa eldra liðinu. Krakkarnir skemmtu sér mjög vel, nema kannski Gummi, fannst hann vera heldur gamall að hanga þarna með þessum smábörnum og tilkynnti hann mér að þetta gengi ekki, hann væri jú unglingur innan tveggja ára og ætti að fermast eftir 3 ár, hvað væri eiginlega í gangi að bjóða uppá svona smábarnasamkomu fyrir hann!
Við fengum góðan gest í gær en það var hann Margeir Sigurðsson Bowentæknir með meiru og var frábært að sjá hann. Margeir býr nú í Köben með sinni fjölskyldu þar sem þau blómstra en hann er alltaf á fartinni milli Íslands og Danmerkur, vinnur við sitt fag bæði hér heima og svo í Dk. Frábær náungi hann Margeir og gaman að fá hann í heimsókn.
Bestu kveðjur,
Einar Sveinn og familí
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 18. júní 2008
Í fréttum er þetta helst...
Gengi krónunnar aldrei lægra í manna minnum og ætlar þetta engan endi að taka; danska krónan kostar mann nú 17 íslenskar krónur hvorki meira né minna. Já, skerðing þeirra á námslánum í Danaveldi og víðar heldur enn áfram, eins gott að sumir séu komnir með fasta vinnu og þurfa ekki að treysta á þessa lús sem námslán eru.
Nú ísbjörn númer 2 var skotinn hér við land í gær, ekki fræðilegur að bjarga honum segja fróðir menn en djöfull finnst mér þetta pínlegt að við Íslendingar getum ekki reddað einu ísbjarnargreyi úr þessum hremmingum sem það er að koma hingað til lands, nei, við bara plöffum þá niður og stoppum svo upp.
Svo var sagt frá því í fréttum á rúv áðan að íslensk ungmenni byrja allra ungmenna fyrst að stunda kynlíf, stelpur í 10.bekk byrja alla vega miklu fyrr heldur en jafnaldrar þeirra í hinum vestræna heimi (minnir að stelpur hafi verið tilteknar í fréttinni en ekki strákar).
Annað sem kom fram er að íslensk ungmenni eru sjálfstæðari en önnur vestræn ungmenni, eyða meiri tíma með vinum og kunningjum og líður betur í skólanum, mun betur en t.d. finnsku ungmennunum sem þó standa sig krakka best í skóla. Gott að börnunum líður vel í skóla en ætli það sé ekki bara vegna þess að þangað fara þau til að slappa af og hitta vinina, svona félagsmiðstöðvarfílingur í því að fara í skólann en minna um sjálfan lærdóm? Finnarnir fíla ekki skólann,þar þarf að púla og ná árangri en ætli þess þurfi nokkuð hér á Íslandi, blessuð börnin taka sig nú bara á þegar þau koma í fjölbraut, tekur því ekki að stressa sig yfir þessum lærdómi fyrr en í fyrsta lagi þá.
Úr allt annarri átt. Of feit óperusöngkona snýr nú til baka til vinnu eftir harða megrun, tekur við hlutverki sínu í konunglegu óperunni í London eftir 4 ára fjarveru vegna þessarar ofurmegrunar. Af hverju fór manneskjan ekki á danska kúrinn?, hefði verið mætt til vinnu á nó tæm, en 4 ár bara í vaskinn út af feitabolluvanda er nú tú möts.
Jæja, að lokum vil ég nefna að mitt ástkæra Skagalið í fótboltanum getur ekki blautan skít í þetta sumarið með "besta" þjálfara landsins fyrr og síðar í brúnni, sjálfan Gauja Þórðar. Liðið spilar arfaslakan, leiðinlegan og hugmyndasnauðan fótbolta og gekk nú ruglið í spilamennskunni svo langt í leik á móti Keflavík fyrr í sumar að stillt var upp með eina 7 varnarmenn en samt tapaðist leikurinn 3-1.
Liðið situr næst neðst að ég held í deildinni og var að tapa áðan í bikarnum fyrir HK (Handknattleiksfélag Kópavogs, segi og skrifa handknattleiksfélag) sem er bæ ðe vei í neðsta sæti Landsbankadeildarinnar. En, skiptir ekki öllu, enska sísonið byrjar eftir mánuð og þar verða mínir menn í Leeds í góðum málum og við munum sko rústa gömlu 3.deildinni!
Kveðjur bestar,
Einar Sv
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Uþþuþvuzz!
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar