Færsluflokkur: Bloggar
Sunnudagur, 15. júní 2008
Af hverju fluttuð þið heim...?
Ég hef lengi ráðgert að setja niður nokkrar línur um þetta og nú er ekki verri tími en annar.
Við fórum í þessar pælingar að flytja út eftir að hafa heimsótt "sænsku" Íslendingana sumarið 2006. Við urðum eitthvað svo heilluð af sænska sumrinu, umhverfinu og bara vorum öll svo upplyft af því að vera þarna.
Man nú ekki hvort María og familía hafi verið með svipaðar pælingar á nákvæmlega sama tíma en alla vega æxlaðist þetta þannig að við vorum í samfloti með þetta, ákváðum að gera þetta í samvinnu og stefnan sett á Danmörku, Árósa nánar tiltekið því þar var gott úrval í skólamálum.
Við sáum fyrir okkur að það að setjast á skólabekk væri gott start og frábær möguleiki fyrir Erian að fara í skóla en skólinn sá yrði að vera lánshæfur hjá LÍN. Eftir langa mæðu og mikla leit gáfumst við uppá að finna lánshæft nám fyrir hana, ekkert í boði að okkur fannst og möguleikar takmarkaðir þar sem ekki hafði mín kona stúdentspróf.
Því varð það niðurstaðan að ég myndi fara á stúfana og finna nám sem væri lánshæft því það er ekki hlaupið í vinnu bara sisona án þess að þekkja mann sem þekkir mann, sérstaklega þegar maður er mállaus á dönsku, svo skóli skyldi það verða og lifað á námslánum.
Ég leitaði að námi í tölvugeiranum sem hugsanlega gæti nýst í kennslu en einnig skoðaði ég möguleika á framhaldsnámi í kennarafræðunum. Hvarf fljótlega frá frekara námi í kennslunni, þar voru skólagjöld en mér fannst alveg nóg að þurfa að taka lán fyrir framfærslu þó ég færi nú ekki að bæta skólagjöldum ofaná.
Fyrir valinu varð nám í Aarhus tekniske skole í Multimedia design, sem er hönnunarnám þar sem notast er við tölvur. Ég entist í mánuð eða svo í þessu en þá fannst mér alveg ljóst að ég hafði ekki nægan áhuga á þessu til að það væri réttlætanlegt að lifa á námslánum útá, betra væri ef Erian gæti seinna tekið námslán þegar hún fyndi eitthvað sem hún vildi læra.
Því ákvað ég að hætta í skólanum og hefja atvinnuleit, þetta er í lok september. Á þessum tímapunkti var ég ekki í sérlega góðu jafnvægi, hafði reyndar ekki verið það lengi heima heldur en það uppgötvaði ég nokkru seinna þegar ég fór að skoða þau mál, fannst öll okkar plön á leið í vaskinn þar sem ég væri að klikka á skólanum, strákarnir voru enn heima og enginn skóli byrjaður hjá þeim og allt óljóst með þau mál. Nú þetta hafði auðvitað áhrif á okkar hjónaband og hafði sennilega gert lengur en ég og við áttuðum okkur á og mikil þreyta og leiðindi í gangi.
Ég fór því heim í byrjun október og við blasti upplausn hjónabandsins. Á Íslandi var ég í mánuð, vann sem afleysingakennari í Sandgerði og bjó hjá pabba og Jóhönnu í góðu yfirlæti.
Ég hafði áætlað að fara út aftur í lok nóvember, þá átti Erian að fara í litla aðgerð á spítala og mátti sig ekki hreyfa í nokkra daga og ég hafði boðist til að hugsa um börnin á meðan hún jafnaði sig. Ég ákvað reyndar að flýta ferð minni út, ætlaði að nota tímann og leita mér að vinnu, ákveðinn í að vera sem næst mínum börnum.
Málin þróuðust fljótlega þannig að saman gekk með okkur hjónum, sem betur fer, en ég þorði ekki að sækja um vinnu neins staðar fyrr en aðgerðin væri afstaðin. Ég hóf því atvinnuleit í byrjun desember, skráði mig á atvinnumiðlanir, sótti um fjöldann allan af störfum en fékk engin viðbrögð.
Í lok desember fáum við svo bréf frá kommúnunni í Aarhus þar sem okkur er tilkynnt að við séum búin að missa leigubætur þar sem ég hafði verið skráður á Íslandi, því hækkaði leigan um 3 þúsund danskar einn, tveir og þrír. Þetta voru bara mistök af okkar eða minni hálfu, ég gleymdi alveg að tilkynna flutning minn til kommúnunnar og því leit út eins og öll familían hefði flutt og þar að auki var bara ég skráður fyrir húsinu hjá HD ejendomme sem leigði okkur.
Við vorum komin í bobba, peningar sem við upphaflega höfðum áætlað í þetta voru búnir, kominn tími á að fá innkomu inn á heimilið, ég atvinnulaus og ekkert búið að gerast í atvinnumálum í heilan mánuð.
Ofan þetta bættist að enn voru skólamálin hjá drengjunum ófrágengin, alla vega hjá Elmari en Gummi hafði fengið inni í skólanum hennar Alexöndru, Frydenlundskole. Elmar var í Næshojskole, án nokkurst stuðnings og átti að vera þar þar til framtíðarúrræði fyndist.
Við lögðum þetta þannig niður fyrir okkur hvort við værum tilbúin til að bíða lengur þar til ég fengi vinnu, vissum sem var að ég fengi auðvitað vinnu á endanum en vissum bara ekki hversu lengi ég yrði að bíða. Við vorum í sjálfu sér tilbúin til að éta út meira af okkar húsi sem við seldum heima en svo spurðum við okkur að því hvort við myndum þola fleiri áföll ef þau myndu koma upp, við höfðum upplifað þennan stutta tíma svolítið þannig því ofan á vandræði með skóla drengjanna og svo okkar erfiða tíma sem hjón bættist t.d. það að okkar næstu nágrannar eru og voru nágrannar frá helvíti, sérstaklega kellingin sem er og var helv... meri. Við vorum ekki viss um að við myndum þola fleiri ágjafir og fannst öruggast að snúa heim í öryggið þar, ég gat fengið vinnu strax í Fellaskóla og varð úr að ég þáði það en Erian og börn kæmu heim um páska.
Við vissum alveg að það tekur á að flytjast á milli landa, aðlagast og allt sem því fylgir en einhvern veginn varð þetta allt saman of mikið fyrir okkur, að þessu sinni alla vega.
Þar með var þetta farið í vaskinn, við búin að gefast upp miklu fyrr en við ætluðum, fórum heim, alls ekki bólusett gagnvart Danmörku og söknum margs, sérstaklega veðurs, umhverfist og auðvitað frændsystkina á Rödlundvegi 307.
Þannig að í stuttu máli þá var þetta ekki að gera sig fyrir okkur, ekki rétta planið og kannski vorum við hjónin ekki alveg tilbúin á þessum tímapunkti að gera svona breytingar.
Nú búum við í smákompu í skítalyktinni af skreiðarhjöllunum hér rétt hjá, og já, ekki frá því að við söknum Danmerkur oft á tíðum. Við náuðum aldrei að upplifa það sem við vorum einna helst að sækjast eftir en það er tími saman sem fjölskylda og njóta alls þess besta sem þetta svæði hefur uppá að bjóða fyrir fjölskyldu eins og okkar. Við vitum ekki hvert okkar næsta skref verður en alla vega er í forgangi að Erian ætlar að mennta sig.
jæja, vona að þetta skýri málið fyrir einhverjum ef þið hafið ekki heyrt þessa versjón af ferðasögunni áður.
Bestu kveðjur,
Einar Sv og co
Bloggar | Breytt 16.6.2008 kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 12. júní 2008
Sumarfrí!
Þá er sumarfríið hafið hjá mér formlega en síðasti vinnudagur var á þriðjudaginn og allir voða fegnir að komast í frí.
Fórum á sunnudaginn uppá Skaga, vorum í samfloti með pabba og Jóhönnu og stefnan var sett á kirkjugarðinn í "heimsókn" til afa og ömmu og í farteskinu voru sumarblóm sem við settum niður.
Við fórum svo á ströndina eftir að hafa kíkt í garðinn og í kaffi á safnasvæðinu, pabbi og Jóhanna fóru reyndar beint í bæinn en við familían á Langasand.
Á Langasandi er gaman að vera í góðu veðri og við stoppuðum í alla vega góðan klukkutíma. Krakkarnir nutu sín vel í þessu umhverfi og vildu helst vera lengur á sandinum en rigning var í næsta nágrenni og við drifum okkur heim á leið eftir að hafa stoppað í 2-3 tíma í mínum gamla heimabæ Akranesi.
Akranes er fallegur staður og örugglega gott að vera með börn þarna, við gætum alveg hugsað okkur að búa þar, mun fallegra bæjarstæði og sennilega meira við að vera fyrir börn en í skítalyktinni hér.
Hvað um það. Við erum á leið í stutta ferð í bústað á Flúðum; verðum í 3 nætur. Við höfum reynt að fara á hverju ári, Kennarasambandið á töluvert af bústöðum á Flúðum og svo er félagið með fullt af bústöðum í leigu víðsvegar um land og okkur finnst gott að fara einu sinni á ári. Krakkarnir njóta sín sérstaklega vel og ekkert skemmtilegra en að busla í pottinum og sprellast um í náttúrunni. Í nágrenni Flúða er margt fallegt að sjá, Geysir, Gullfoss, Skálholt svo eitthvað sé nefnt.
Annars allt rólegt bara, Elmar Ingi orðinn 8 ára og voða sæll með það, hann stækkar og stækkar drengurinn, enginn rindill drengurinn sá!
En best að hætta, ekki mikið af okkur að frétta svo sem. Hér er veður fremur kalt að okkar mati, voru ekki nema 9 gráður áðan þegar við Erian fórum í göngu með hundinn og frekar hráslagalegt, enginn Danablíða hér.
Bestu kveðjur
Einar Sveinn og co
Bloggar | Breytt 13.6.2008 kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 4. júní 2008
Sýnishorn
Lofaði sýnishorni um daginn af verkum strákanna í smíði, hér er alla vega hluti af þessu:
Alexandra kom líka með möppu úr myndmennt og þar fann ég t.d. þetta:
Já, þau eru bara handlagin börnin, annað en ég sem er með 10 þumalputta og alla í kross, get varla skrifað nafnið mitt svo læsilegt sé.
Meira síðar og kveðjur bestar,
Einar Sv og co
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 30. maí 2008
Nýjar myndir
Nokkrar nýlegar myndir komnar inn, Erian var að setja inn myndir teknar núna í maí.
Annars allt gott héðan, hálfgerður skjálfti í manni eftir gærdaginn!
Kveðjur bestar,
Einar Sv og co
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 29. maí 2008
Sauður.....
Varla hægt að gera annað en að viðurkenna opinberlega að maður er alger sauður og þykja varla stórfréttir. Alla vega hlýtur maður að flokkast undir að vera sauður þegar í afrekalistann bætist að vera bensínlaus á Reykjanesbrautinni, hvaða sauður fer á Brautina með tóman tank, nema kannski ég...?!
Við hjónin fórum í bæinn á þriðjudag, Erian átti að mæta í viðtal í Snyrtiakademíunni eftir hádegi og við brunuðum þangað og Elísa með, vorum á stóra bílnum sem svo oft hefur verið okkur erfiður og ekki ósjaldan bilað. Veit ekki hvað hefur ekki klikkað í þessum blessaða bíl okkar, allt frá sjálfskiptingu og yfir í tölvuheila og viðgerðir hlaupa á hundruð þúsunda, er ekki að grínast.
Á leiðinni heim verður mér litið á bensínmælinn og mér til afsökunar þá sýndi helv...beinið tæpan 1/4 og ég þóttist góður alla leið til Kefló alla vega. Við renndum framhjá N1 í Hafnarfirði og ég var að bræða með mér hvort ég ætti ekki að renna á planið og taka bensín en ákvað að sleppa því og tanka bara í Keflavíkinni.
Svo þegar við erum alveg að koma að álverinu í Straumsvík þá byrjar beyglan að hiksta og ég renni út í kant umsvifalaust, alveg viss að nú sé bílskrjóðurinn að bila eina ferðina enn og gott ef nýi heilinn í honum sé ekki bara farinn eins og sá gamli. Ekki hvarflaði að mér að ég væri bensínlaus, vanur að keyra þar til bensínljósið kviknar og allt í fínu með það en nú var ekkert ljós kviknað og ég á tæpum fjórðungi á tank.
Hringdi í Adda hennar mömmu og hann brást skótt við og kom innan stundar með bensín á brúsa, svona til vara ef ske kynni að þetta væri það; ég hafði sagt honum að þetta lýsti sér svipað og bensínleysi eða þetta gæti verið heilinn, bíllinn hefði látið svona þá þegar hann fór.
Og viti menn, druslan rauk í gang og ekki laust við að manni hafi liðið eins og kjána, en samt feginn að ekkert var að nema það vantað bensínið (hver tímir líka að taka bensín nú til dags, prísarnir alveg úti á þekju þessa dagana!)
Hér rétt í þessu hristist allt og skalf og alveg ljóst að heljarinnar jarðskjálfti hefur riðið yfir. Ég stóð nú bara inni á klósetti og var að pissa þegar allt í einu ég riða til falls en náði þó jafnvægi og datt ekki á rassgatið þarna þar sem ég stóð og meig. En þvílík læti, skilst að á Suðurlandi sé allt á tjái og tundri innandyra í sumum húsum og jafnvel talað um skemmdir á húsum, 6,1 á Richter segir Veðurstofan. Svo hér er allt að gerast.þ
Við Gummi ætlum í bíó í kvöld, bara tveir að sjá Indiana Jones,hann er búinn að suða lengi og er mikill bíómyndakall.
Elmar er að halda uppá afmæli sitt með vinum sínum, fámennt en góðmennt eins og hjá Gumma og allir úti að leika núna í blíðunni. Já, ég sagði blíðunni því úti er bara bongó á íslenskan mælikvarða, sól og gola og ég get svo svarið það að engin skítalykt finnst akkúrat núna.
Jæja, best að drífa sig í að hjálpa Erian að taka af borðinu og svona,drengingir farnir út og best að drífa í að taka aðeins til.
Kveðjur bestar,
Einar Sveinn og familí
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 23. maí 2008
23.maí
Þessi "unglingur" fyllir 60 ár í dag.
Til hamingju með daginn elsku mamma, tengdamamma og amma.
Einar Sveinn, Erian og börn
Afmælisdagur er áfangi á leið
til ókunnra fjarlægra heima.
En ýmislegt skeður um alfararskeið
sem okkur er réttmætt að geyma.
Og af þessum hlutum ég ákveðið hef
eitt einasta skipti að senda þér stef.
Og fylgi þér guð eftir gæfunnar braut,
og gleðji þín ár, þína daga.
Og verndi þig æ fyrir erfiði og þraut
uns öll verður lífsferils saga.
Og hinsvegar bregðist ei heimvonin þín
þar himinninn ljómar og viðsýnið skín!
Afmælisvísa (Einar Sveinn Frímann)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Allt gott bara, er það ekki!
Langt liðið á þessa viku, Júróbullið í kvöld og allir svaka spenntir. Ekki mikill aðdáandi sjálfur en samt, gaman að sjá íslenska lagið og svo kíkir maður á atkvæðagreiðsluna í það minnsta.
Ég hef sent fleirum bréf en bæjarstjóra vegna skreiðarhjallanna hér í nágrenninu, t.d. sendi ég póst á formann umhverfisnefndar hér í bæ (en sá aðili svarar ekki bréfi mínu fremur en ágætur bæjarstjóri, ekki enn alla vega). Ég ákvað því að senda Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja póst og þeir svöruðu að bragði og á þá leið að þeir vissu af þessu máli og væru búnir að setja sig í samband við fyrirtækið sem um ræðir. Fyrirtækið heitir Nesfiskur og þeir lofa að ekki verði hengdur upp fiskur aftur til þurrkunar í þessa hjalla og við verðum bara að þola það að bíða eftir að ógeðið þorni nægjanlega svo rífa megi niður aftur, svo ætti maður að vera frjáls frá þessu eftir það. Vonum það besta, læt heyra frá mér aftur ef vandamálið verður eitthvað viðvarandi hér.
Að öðru. Styttist í annan endann á skólagöngu barnanna þetta árið og allir farnir að hlakka til sumarsins. Þau hafa verið dugleg að koma heim með gripi úr smíði og handavinnu og hér eru tvö stykki frá Alexöndru (set eitthvað frá strákunum næst, á eftir að taka mynd af þeirra dóti).
Bara ansi gott hjá stelpunni, hún er handlagin og hefur það sennilega frá móður sinni, ekki frá mér alla vega.
Horfði á leikinn í gær, mikið drama og ég hálf vorkenndi Terry hjá Chelski þegar hann rann á bossann og skaut framhjá, hann mun seint gleyma því þegar hann klúðraði evrópubikarnum fyrir sitt lið. Annars hélt ég með Chelsea, fannst nú nóg að Man U hafði unnið enska titilinn en svona er þetta, Mannsararnir bara vel að þessu komnir. Mínir menn í Leeds spila svo á sunnudag úrslitaleik á Wembley um sæti í næstu deild fyrir ofan og ekki þarf að orðlengja neitt frekar að ég verð alveg límdur í sófann eftir hádegi á sunnudag og vonast til að mínir menn vinni sigur að sjálfsögðu.
Læt að lokum aðra vísu, frumsamda eftir sjálfan mig eins og Eiríkur Fjalar myndi segja, flakka. Hún er eins og sú síðasta, argasti leirburður og hnoð en gaman að hafa svona vísnahorn finnst mér, aðeins að krydda þetta hérna
Nú til fjandans farðu til
fífl þú kannt að veraÞér ég sendi andans yl
yfir haf og frera.
Kveðjur bestar,
Einar Sv og familí í Júróvísjón fílíng.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 17. maí 2008
Örstutt innslag
Ég var búinn að skrifa hér heila romsu en svo datt allt út, veit ekki af hverju og ég var ekki búinn að vista
En,ég hafði víst skrifað eitthvað um það hvað þetta væri léleg frammistaða hjá manni í blogginu, líða bara fleiri dagar og ekkert skrifað, bara ritstífla í gangi.
Vaknaði eldsnemma í morgun, úti súld og skítalyktin frá fiskifabrikkunni hér fyrir ofan að drepa mann, held ég hafi vaknað við þennan ófögnuð. Alla vega þá flaug í hug mér fyrripartur en því miður get ég ekki botnað að neinu viti og hef reyndar ekki nokkra skáldagáfu en til gamans læt ég leirburðinn flakka:
Súldin ekki léttir lund
lyktin mig að pirraEkki kalla hundinn hund
held að það sé firra.
Já, bara fullsköpuð ferskeytla takk fyrir en heldur slöpp. Hvað um það, bæjarstjórinn virðist ánægður með að hafa nóg af "peningalykt" í plássinu og kannski eru bæjarbúar bara ánægðir með lyktina sem hér er yfir nánast á hverjum degi, orðnir svona samdauna og þekkja ekkert annað?
Svona var þetta nú á Seyðis í gamla daga, 2 bræðslur í bænum sitthvoru megin fjarðar,spúandi reyknum langt upp í loft og húsmæður gátu sjaldan hengt út þvott. Ekkert ósvipað hér en þó var lyktin verri á Seyðis, þar hreyfði sjaldan vind og viðbjóðurinn lá eins og ský yfir öllu. Nú eru þessar græjur orðnar svo flottar að nánast engin lykt kemur frá bræðslunum. En hér er það hausaþurrkun sem veldur þessum óþverra, ekki bræðslur.
Nóg um það. Vildi aðeins minnast á að mínir menn í flottu búningunum, Leeds Utd eru komnír í úrslitaleik á Wembley um laust sæti í Kóka kóla chamiponship, ekki úrvalsdeild því miður en deildinni fyrir neðan hana. Til hamingju með það mínir menn, læt hér fylgja mynd af óþekktum Leedsara.
Já, það er hálf leiðinlegt veðrið, bara rigningarsuddi svo krakkarnir hafa hangið innan dyra í dag. Nammidagur, allir með snakk í þetta sinn, enginn nammipoki.
Erian að vinna en hennar bíður yndislegt lambalæri þegar hún kemur heim sem ég er með í ofninum einmitt þegar þetta er ritað, jafnast ekkert á við íslenskt lambalæri, nema það sé lambahryggurinn og þá léttreyktur?!
En læt þetta duga, best að kikka aðeins á steikina, hella aðeins soðinu yfir og setja kartöflur í pott.
Bestu kveðjur,
Einar Sveinn og co.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 12. maí 2008
Skreið....til Nígeríu?
Lóla stækkar og stækkar og verður orðin fullvaxin áður en við vitum af. Þetta er eins og að vera með smábarn að vera með svona hvolp, það er leikið og djöflast en þess á milli er sofið út í eitt. Fórum t.d. á föstudagskvöld eða eftir kvöldmat í smá göngutúr með dömuna og hún var svo þreytt eftir það að hún svaf bara alveg til að verða 8 morguninn eftir. Annars er hún vön að vekja mann um 5 leytið til að pissa og svo er ræs aftur ekki seinna en 8 og þá verður maður bara vessgú að rífa sig upp á taðgatinu og sinna hundinum, annars er bara vælt og skælt og fiktað í öllu og hitt og þetta nagað. Já, sumir skilja ekkert hvernig maður nennir að standa í þessu og stundum skilur maður það ekki sjálfur en hundurinn á eftir að róast þegar frá líður og ærslin minnka. Við bara erum orðin svo vön að vera með hund að víð gátum ekki hugsað okkur hundslausa tilveru.
Annars hefur þetta nú verið með rólegri helgum hjá okkur, úti hefur verið súld og rigning með köflum og bara svona veður til að hanga inni í rólegheitum og hafa það huggó. Annars bara notó hjá okkur, góður matur, alls kyns snakk og nammigúmmelaði, fótbolti og bíó, heilt yfir bara fínasta helgi en ekki sama veðurfarið og í nágrannalöndum okkar í Evrópu.
Veðrið er svo sem ágætt inn á milli hér á klakanum þó oft sé æði hvasst hér á Garðskagatánni. Eitt sem fer hræðilega í skapið á manni eru þessar fiskifabrikkur út um allt hér, eins og þeim sé plantað allt í kring um íbúabyggðina og spúa svo úldinni skítalykt yfir allt. Hér rétt fyrir ofan Silfurtún er t.d. ein slík fabrikka sem sérhæfir sig í að verka skreið, þurrkar hausa og svoleiðis ógeð. Stybbuna af þessu leggur yfir allt hér í flestum áttum að manni finnst, kannski síst í norðanátt en þá kemur bara stybba frá fabrikkunum sem eru neðar í bænum.
Ég sendi bæjarstjóra tölvupóst og kvartaði undan þessum fjára, sagði að hver maður hlyti að sjá að svona fiskþurrkunarversmiðjur ættu ekkert erindi nánast inni í garði hjá manni. Fékk bara staðfestingu um að viðkomandi hefði lesið póstinn en engin viðbrögð annars.
það er mín tilfinning að hér í bæ ríki ekki nógu góð samstaða um góð málefni heldur sé hér hver höndin uppá móti annarri og einhver afturhaldsöfl í gangi. Maður horfir bara til Sandgerðinga og sér að þar virðast menn vera meira samtaka um að pota sínu byggðarlagi áfram og t.d. er þar búið að rífa bræðsluna sem spúði skítalykt í sí og æ yfir allan bæ. Þar er verið að byggja upp að manni finnst, t.d. í skólamálum, bæði leikskóla og grunnskóla og svo er verið að gera mjög stóra hluti hvað varðar öll íþróttamannvirki og íþróttaaðstöðu almennt (veit reyndar að þar seldu menn Fasteign allar fasteignir bæjarins en með því geta Sandgerðingar byggt upp alla aðstöðu í skóla- og íþróttamannvirkjamálum, ættu Garðsarar kannski að skoða þennan möguleika?). Hér finnst manni allt einhvern veginn standa í stað. En ég hef svo sem ekki sett mig neitt inn í þessa hluti hér, maður verður alla vega ekki var við stórar eða merkilegar framkvæmdir, t.d. í skólamálum en sú stofnun kallar á stækkun og úrbætur.
Jæja, læt þetta tuð duga að sinni, Erian að vinna og bara ég og skæruliðarnir heima og í augnablikinu er allt í rifrildi og best að drífa sig í að skakka leikinn.
Bestu kveðjur úr ylminum yndislega,
Einar Sv og co
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Nýjar myndir, eða gamlar altso!
Setti nokkrar eldgamlar myndir inná myndaalbúmið okkar á 123.is.
Annars allt gott, styttist í helgina og veðrið er nokkuð gott, krakkarnir alla vega úti að leika.
Löng helgi framundan, hvítasunna og maí er flottur mánuður með öllum þessum frídögum, mættu fleiri mánuðir vera eins og maí!¨
Kveðjur bestar,
Einar Sv
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Uþþuþvuzz!
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar