Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 7. maí 2008
Prinsinn í heimsókn
Danski prinsinn Friðrik og kona hans hún María krónprinsessa eru hér á landi í opinberri heimsókn og hafa farið víða. Í gær sást til þeirra á Suðurlandi, tekinn hringur um Geysi og Gullfoss og þetta hefðbundna.
Hið konunglega fólk hefur einnig litið við í einhverjum grunnskólum landsins, m.a. Áslandsskóla hjá Leifi Garðarssyni og hans fólki og svo í dag voru hjónin stödd vestur á landi og stoppað í grunnskólanum í Stykkishólmi.
Sýnt hefur verið frá heimsókninni í sjónvarpinu og í kvöld var stutt innslag á Stöð 2 frá Stykkishólmi og greint frá óvæntri uppákomu í grunnskólanum. Þar voru börn með fyrirspurnir til kóngafólksins og einn pilturinn á að giska 12 ára eða svo bar upp spurningu fyrir prinsinn, fyrst á einhverju sem átti að vera danska en enginn skildi neitt í bullinu í drengnum og fór svo að hann bar upp spurningu sína á ensku og þá kom: "Have you ever had a gey fantasy"? Fyrir þá sem ekki eru sleipir í engilsaxnesku þá er drengurinn að spyrja prinsinn hvort hann hafi átt einhverja hommadraumóra eða gælt við slíka drauma.
Mér datt fyrst í hug hvort börnin hefðu verið búin að undirbúa spurningarnar áður en prinsinn mætti og þá með aðstoð kennara en finnst það nú harla ólíklegt nema þeir kunni sig bara alls ekki þarna fyrir vestan en ég svona hálf skammaðist mín fyrir hönd okkar Íslendinga þegar ég sá þetta, fannst þetta alveg síðasta sort.
Kveðjur bestar,
Einar Sv
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 5. maí 2008
Þeir kunna að semja í Dk, eða hvað?!
Þetta þykja mér góðir samningar, hækkun sem nemur allt að 4200 dönskum krónum á mánuði (rúmar 60 þúsund íslenskar).
Kennarar hér á landi þykjast margir hverjir voða brattir með nýgerðan samning okkar sem nær til eins árs en þar er hækkun frá 13 til 23 prósent á tímabilinu. T.d. hækka ég um 25 þúsund 1. júní og svo um 9 þúsund þann 1.ágúst, svo er einhver launaflokkabreyting á tímabilinu og 2,5 prósenta hækkun líka. En voðalega finnst mér þetta ræfilslegt hjá okkur miðað við þetta þarna í Danaveldi, sérstaklega þegar tekið er með í reikninginn skelfileg kjör kennara hér á landi. Annars er erfitt að segja með þessa dönsku samninga, örugglega ekki allir sem eru að fá svona góða hækkun.
Annars allt gott af okkur að frétta. Vinnuhelgi hjá Erian en ég og krakkarnir heima (í heimanáminu, hahaha). Við bara tókum það rólega, skruppum aðeins til afa og Jóhönnu, svo var auðvitað þetta hefðbundna verslerí og þessháttar skemmtilegheit.
Lóla stækkar og stækkar og við erum búin að fara 2 eða 3 sinnum með hana niður í fjöru síðan á fimmtudag og leyfa henni að hlaupa þar um og skottast. Það finnst henni ekki leiðinlegt og við hittum t.d. boxerhund þarna á laugardaginn og það er alveg nauðsynlegt fyrir lítinn hvolp að hitta aðra hunda svona á uppvaxtartímanum, þannig félagsvenst hún mun betur og verður skemmtilegri í kringum aðra hunda og ekki árásargjörn.
Heil vinnuvika framundan sem heyrir nú til undantekninga í maímánuði, reyndar ekki alveg heil því það er jarðarför í Sandgerði á miðvikudag og allar stofnanir bæjarins lokaðar frá hádegi. Svo er bara löng helgi framundan, sjálf hvítasunnuhelgin og ekki þykir manni nú leiðinlegt að vera í fríi á mánudegi, ekki alveg skemmtilegustu dagarnir í skólanum.
Jæja, læt þetta duga í bili, ánægður með opinbera starfsemenn í Danmörku, þeir kunna að semja, alla vega miðað við okkur vesæla Íslendinga!
Bestu kveðjur,
Einar Sv og familí
Samið í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 1. maí 2008
1.maí og himmelfartsdag reyndar líka!
Gleðilega hátíð nær og fjær. 1.maí og allir í skrúðgöngu, ekki rétt? Eru þær við lýði ennþá, ég bara spyr? Man ekki eftir að hafa farið í skrúðgöngu á 1.maí síðan ég var gutti, hálf vonlaus fyrirbrigði þessar göngur að mér finnst.
Við fórum ekki í skrúðgöngu á þessum bæ í tilefni dagsins en ég, Erian og Elísa tókum smá rúnt út á Garðskagavita og Lóla kom með líka. Löbbuðum þar dágóða stund á ströndinni, skítakuldi en fallegt veður og hressandi að berjast á móti norðanáttinni.
Krakkarnir eru annars bara í rólegheitum að leika sér, ekkert heimanám ennþá en ég sendi email á kennarann hans Gumma og fékk svar sem ég svaraði aftur og svo kom svar númer tvö. Um margt ágæt svör en bera vott um þekkingarleysi að mínu mati, gríp aðeins niður í hvað þessi ágæti kennari hafði að segja:
a) um hvort hann hafi ekkert fengið upplýsingar frá sérkennslu skólans um Guðmund (við vorum búin að tala við það batterí og biðja um að talað yrði við kennarann og hann settur inn í stöðuna hjá Gumma) segir hann..."ég hef fengið vitneskju um stöðu sonar þíns og því fylgir hans heimavinnuáætlun að hann gerir eins og hann getur, sem ég hef sagt við hann"
b) um heimanámið fyrir fimmtudaginn segir kennarinn:...."Hvað varðar heimanámið þá var það skýrt tekið fram í tíma að krakkarnir ráða hvort þeir klára það sem þau eiga að gera fyrir fimmtudaginn á fimmtudaginn eða um helgina.
hann sem sé hefur rætt þetta allt saman við drenginn....í skólanum en ekki séð ástæðu til þess að senda neitt með honum heim eða senda okkur línu eða hringja til að sjá til þess að upplýsingarnar komist til okkar örugglega. Gummi er ekki vís með að koma svona munnlegum skilaboðum til okkar, reyndar mjög ólíklegt að hann skili svona upplýsingum hingað heim, þe upplýsingum sem gefnar eru munnlega í skólanum."
Einnig um heimanám á rauðum frídögum segir þessi ágæti maður:..."Það er hinsvegar mín skoðun að krakkarnir geti tekið tíma frá fyrir heimalærdóm líka á frídögum." Sem sé, allt í fína að hafa heimanám 1.maí, bara hollt og gott sýnist mér.
Ég svaraði þessu og sagðist alls ekki geta verið sammála svona vitleysu um heimanám á frídögum og þá kom þetta hérna:..."Hvað varðar rauðu daganna þá er það auðvita ekki svo að þau verði látin læra á frídögum sínum í framtíðinni. Þetta er heyrir algerlega til undantekninga, að svona sé gert, og þá engöngu í efstu bekkjum. En ég vonaðist að með þessu væri hægt að bæta örlítið fyrir þær 3 vikur sem fóru forgörðum áður en ég mætti."
Í fyrsta lagi er varla hægt að segja að 5.bekkur tilheyri efstu bekkjum og þar að auki á ekki að refsa þeim um helgar og á rauðum dögum þó kennarinn þeirra hafi veikst og eitthvað tapast niður í yfirferðinni, alla vega finnst mér engin þörf á þessum aldri að leggja aukavinnu á svona unga nemendur á frídögum til að vinna upp eitthvað af því kennarinn þeirra veiktist.
En, svona var það, þessi kennari er að mínu mati bara reynslulaus og enginn búinn að segja honum neitt um hvað er í lagi og viðeigandi t.d. í sambandi við heimanám.
Nýjar myndir á myndasíðunni, teknar 1.maí.
Bestu kveðjur,
Einar Sv og familí
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 28. apríl 2008
Er þetta í lagi?
Í framhaldi af pælingum mínum um heimanám þá langar mig að deila með ykkur fróðleiksmola af heimavinnuáætlun Gumma þessa vikuna.
Eins og í flestum siðmenntuðum löndum þá er 1.maí á fimmtudag um land allt ef mig ekki brestur minni og fyrir fimmtudag, 1.maí og já, uppstigningardag lítur heimavinna Guðmundar út svona:
Lestur: Lesa í heimalestursbók upphátt. Foreldrar kvitta (en ekki hvað?)
Stærðfræði: Minnst ein blaðsíða (stendur reyndar nákvæmlega þetta: Minnst 1.bls sem þýðir síðast þegar ég vissi fyrsta blaðsíða!)
Samfélags og landafræði: Landshorna á milli lesa 32-38
Samfélags og landafræði (já, aftur) Klára að bls 31 í Land og líf.
Þannig að ég spyr, finnst ykkur þetta í lagi? Er bara allt í sómanum að börn landsins liggi pungsveitt yfir heimanámi á tyllidögum eins og 1.maí og á sumardaginn fyrsta? Mér finnst þetta alveg ótrúlegt og þið getið rétt ímyndað ykkur að ég er búinn að senda kennaranum hans email og spurði einmitt út í það hvort honum finnist þetta í lagi. Ég hef ekki fengið svar en svona er þetta hér í sveit en svo mikið er víst að þetta er að ég held ekki ástundað með þessum hætti á mínum vinnustað.
Reyndar má segja að Gummi greyið liggi yfir ofantöldu heimanámi á miðvikudaginn en á fimmtudaginn liggur hann þá yfir heimanámi föstudagsins sem hljóðar uppá lestur og vinnubók sem fylgir, ein blaðsíða í vinnubók í Mál til komið, Samfélags og landafræði, lesa þar 6 bls.
Annars allt gott héðan, við liggjum í heimanáminu á meðan ég rita þetta tuð um heimanámið, ja hvur röndóttur, þetta heimanám getur farið illa í taugarnar á manni, sérstaklega eftir hálf leiðinlegan mánudag með áhugalausum unglingum.
Kveðjur bestar,
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 27. apríl 2008
Linkur á myndaalbúm
Við ætlum að hætta fljótlega með myndasíðuna á barnalandi en færa okkur í staðinn á 123.is, linkur á þetta er vinstra megin undir tenglar.
Lykilorðið er gælunafn Erian en fáir vita hvert er, svo ef þið viljið lykilorð þá bara senda email á esg67@simnet.is eða erian_einar@hotmail.com
Kveðjur
Bloggar | Breytt 28.4.2008 kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. apríl 2008
Í vikulokin
eða réttara sagt, í vikubyrjun. Annars finnst mér ný vika alltaf hefast á mánudegi en ekki sunnudegi svo ég hef það bara vikulokin.
Við höfum haft það náðugt hér meira og minna síðan á fimmtudag. Reyndar vorum við bæði í vinnu á sumardaginn fyrsta, ég vann fram undir hádegið (unnum af okkur föstudaginn sem átti að vera samstarfsdagur og nemendur í fríi en við tókum þennan dag í staðinn á fimmtudag) og Erian fór svo í sína vinnu um eitt leytið. Svo við fengum langa helgi sem nú er að renna sitt skeið.
Ekki höfum við nú gert merkilega hluti þessa helgina, verslað á föstudeginum, nammidagur og fótbolti hjá mér á laugardegi og í dag er það heimanám hjá krökkunum og slík skemmtilegheit. Við hjónin vorum reyndar grand á því á föstudaginn, pöntuðum okkur tælenskan mat, sóttum og borðuðum hér heima en krakkarnir fengu "bara" pylsur en voru reyndar alveg sátt við SS-pullurnar.
Talandi um heimanám barnanna þá er ég alveg kominn á þá skoðun að það á að eiga sér stað að mestu leyti í skólanum en ekki heima. Já, sumir gætu nú orðið hneykslaðir á kennaranum að segja svona en er ekki eðlilegra að krakkarnir klári sinn vinnudag í skólanum frekar en að koma heim og halda svo áfram með vinnudaginn, hafa þetta samfelldan vinnudag eins og hjá flestu fólki, þessi börn eru jú í skyldunámi?
Það er líka vitað mál að aðstaða foreldra er afar mismunandi, sumir eiga mjög auðvelt með að aðstoða börn sín, eru heimavinnandi eða vinna hálfan dag, svo eiga sumir bara eitt barn á meðan aðrir eru með fleiri á skóla aldri, sumir eiga börn með sérþarfir og svo framvegis.
Alla vega veit ég að á sumum heimilum er það þannig að foreldrar vinna til a.m.k. 5 á daginn, sumir lengur og þá á eftir að elda matinn og í leiðinni á að sinna heimanáminu eða þá að það er gert eftir kvöldmat þegar allir eru þreyttir og lúnir eftir amstur dagsins.
Oft verða þessar "gæðastundir" að martröð. Þetta eiga að vera stundir þar sem foreldri og barn eiga góða stund yfir náminu, saman, en þetta er bara alls ekki svona á öllum heimilum og aðstæður barna og foreldra misgóðar.
Því vil ég sjá að skólarnir felli heimanám inn í stundatöflur nemenda, þar sé því sinnt með aðstoð kennara, allt nema heimalestur. Þetta vil ég sjá alla vega allt yngsta- og miðstigið.
Á okkar heimili eru þetta oft erfiðar stundir þegar setið er við heimanám, reyndar er Alexandra mjög sjálfstæð og við þurfum lítið að hjálpa henni en strákarnir eru ekki eins spenntir fyrir þessu og stundum þarf að taka þetta með "töngum" hjá þeim með miklu röfli. Við erum reyndar heppin að Erian vinnur vaktir og svo er ég oftast kominn heim um eða upp úr 4 svo okkar aðstæður eru ágætar.
Alexandra er alltaf að teikna, hér eru tvö nýleg dæmi. Alla vega finnst mér hún rosalega flink að teikna en ekki að marka mig, ég get nú varla skrifað nafnið mitt svo það skiljist, hefði átt að verða læknir miðað við skriftina!
Erian liggur enn undir feldi hvað varðar skólamál næsta vetur en er orðin spennt fyrir ljósmyndanámi sem hægt er að stunda í skóla í Reykjavík. Það er eins árs grunnnám, kvöld og helgarnám en svo er í framhaldinu hægt að taka 3 annir í þessum skóla í dagskóla, vona að þetta gangi upp hjá henni.
Jæja, læt þetta duga í vikulokin, veð úr einu í annað alveg stefnulaust. Næsta vika bíður handan við hornið og það besta við næstu viku er að það er 1.maí á fimmtudaginn sem þýðir frí hjá mér.
Bestu kveðjur
ps. hér er bongóblíða, alla vega svona séð út um gluggann
Bloggar | Breytt 28.4.2008 kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 24. apríl 2008
Gleðilegt sumar
Þá er sumarið skollið á með öllum sínum þunga, gleðilegt sumar allir nær og fjær!
Þessi mynd var tekin á Seyðis í fyrra vor, 29. eða 30.apríl. Við fórum þessa helgi og settum niður legsteininn á leiði Einars Sveins Frímann og veðrið var alveg frábært eins og sést á myndinni. Hvergi fallegra á Íslandi í góðu sumarveðri en á gamla góða Seyðisfirði, fallegur staður.
Ég var að vinna í dag, unnum af okkur morgundaginn svo ég er í fríi til mánudags. Reyndar er slappleiki í gangi hjá okkur Elísu þessa dagana, bæði búin að ná okkur í þetta fína vorkvef, held að stelpan sé nú að jafna sig en ég geng á íbúeni og nefúða, alveg drullustíflaður af þessum fjanda.
Maður er ekki fyrr kominn inn úr dyrum þá rýkur Erian út, hún er að vinna en í fríi um helgina, sem betur fer. Elmar er að fara í afmæli hjá bekkjarbróður sínum en við hin ætlum að kíkja aðeins á afa Gumma. Afi er að fara í miklar framkvæmdir á baðinu hjá sér, ætum aðeins að kikka og sjá hvort hann sé nú að gera þetta almennilega!
Annars allt gott héðan. Set hérna með tvær mjög svo gamlar myndir sem ég fékk í vikunni og skannaði inn í tölvu hjá mér. Önnur er af langafa mínum honum Páli Sigurðssyni og konu hans og langömmu minni Jónu Sigurbjörgu Guðmundsdóttur.
Þessi heiðurshjón voru foreldrar afa Einars Sveins "skalla" Pálssonar. Hin myndin er svo íðilfögur fermingarmynd af undirrituðum!
Kveðjur
Bloggar | Breytt 28.4.2008 kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 19. apríl 2008
Laugardagur og lífið gengur sinn vanagang.
Já það er orðið langt síðan ég bloggaði síðast, tími til kominn að mann drullist í nýtt blogg segja sumir en aðrir dauðfegnir að héðan sjáist ekki stafur!
Af okkur er annars allt meinhægt að frétta, vinnuhelgi hjá Erian en ég og krakkarnir bara í rólegheitunum heima á meðan.
Guðmundur Örn varð 11 ára 17.mars. Þá var ég staddur í Danaveldi og missti af veislunni hér heima en um síðustu helgi var hér mini-afmæli, Gummi hafði boðið bekkjarbræðrum sínum í veislu, var reyndar fámennt en góðmennt. Gummi er ekki vinamargur en á eina 2 trausta vini úr sínum bekk en mest sækir hann félagsskap í Elmar bróður sinn og eru þeir mestu mátar og báðir dálitlir heimalingar. Mest um vert var að Gummi fékk 2 veislur og var ánægður með sitt, vantaði bara að hafa frændsystkinin frá Danmörku í veislunni!
Alexandra er dugleg í skólanum og á föstudaginn skilaði hún sinni fyrstu alvöru ritgerð. Sú fjallaði um Titanic, bíómyndina altso en þessi mynd er ein af uppáhaldsmyndum dömunnar. Annars er hún frekar sátt með sitt, saknar Evu frænku voða mikið því þær voru orðnar ansi nánar og góðar vinkonur úti í Dk. Alexandra er ekkert of framfærin, soldið lík pabba sínum með það, ekkert að trana sér fram og er hlédræg en ofsalega dugleg í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur, bæði í skóla og hér heima. Hún er ofsalega flink orðin að teikna, alger snillingur á því sviði þó ég segi sjálfur frá.
Elli sprelli er alltaf í stuði en hefurrólegt yfirbragð og er yfirvegaður. Hann er duglegur í skólanum, alltaf að verða betri og betri í lestri og nokkuð glúrinn í reikningi líka. Honum finnst gaman að leika með Gumma stóra bróður en hann á líka sína vini úr bekknum sínum. Elmar þykir líkur pabba sínum í útliti en mér finnst hann samt töluvert blandaður, sé nú ekki alveg að hann sé alveg eins og ég.
Fjörkálfurinn á heimilinu, fyrir utan hundinn Lólu, er hún Elísa. Hún er alger skellibjalla og svolítið ákveðin! Hún er á leikskólanum og unir sér vel, er þar frá 9-16 alla daga. Hún er mikil leikskólastelpa og undi sér t.d. mjög vel á leikskólanum sem hún var á í Danmörku. Henni finnst mest gaman að leika með dótið hennar Alexöndru systur sinnar, Alexandra er nú ekki alltaf ánægð með það og stundum er rifist og grenjað yfir draslinu eins og vera ber hjá systkinum.
Við erum komin í fastar skorður með okkar líf í bili, Erian vinnur í Fríhöfn á vöktum frá 1 til 7. Ég er í kennslunni bara eins og venjulega og líkar það bærilega. Við erum sem sagt svona að komast í venjulega rútínu eftir umskiptin. Það var mikið átak og erfitt að flytja heim aftur frá Danmörku eftir allt of stuttan tíma, kannski ég bloggi eitthvað um það seinna, af hverju við tókum ákvörðun um að fara heim á þeim tímapunkti. En í örstuttu þá mátum við okkar mál og aðstæður þannig í ársbyrjun að vænlegast væri fyrir okkur að fara heim. Við erum nokkuð sátt við þá ákvörðun en söknum Merkurinnar samt að mörgu leyti en meira um þetta síðar.
Jæja, þá er ég nú búinn að blogga eitthvað svo ekki hægt að segja að síðan sé alveg steindauð!
Bestu kveðjur nær og fjær og góða helgi.
Bloggar | Breytt 3.5.2008 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 10. apríl 2008
Mér þykir nú ekki allt mikið....
þegar ég venst því sagði amma Magga!! En sumu er erfiðara að venjast en öðru.
Eitt af því sem afar erfitt er að venjast er íslensk veðrátta, sérstaklega Suðurnesjaveðri. Í gær vöknuðum við upp við að allt var komið á kaf í snjó á nýjan leik og átti maður hreinlega erfitt með að komast út af bílaplaninu í morgunsárið. Ég hef í tvígang þurft að dúsa heima eftir áramót þar sem ég hef ekki komist til vinnu vegna snjóa og alveg eldsnöggt stakk þeirri hugsun niður hvort maður yrði nú að dúsa heima einn daginn enn þar sem ekki væri hægt að komast spönn frá rassi! En þetta bjargaðist, var bara asskoti mikill snjór á planinu en marautt þessa leið út í Sandgerði. Snjórinn er svo sem ekki alvondur en það er pirrandi ef maður kemst ekki leiðar sinnar út af þessum fjanda. Það sem er reyndar erfiðast við veðráttuna hér í þessum rokrassi er norðanáttin ísköld og ekkert hér til að skýla manni, engin fjöll eða neitt svo norðanfýlan kemur bara beint á mann hér yfir hafið.
Annað sem ég á erfitt með að venjast er að sjálfstæðismenn skuli ENN stjórna þessu landi, alveg frá því árið 1991 ef ég man rétt höfum við setið uppi með þessa Kanasleikjustjórnir sjálfstæðismanna og alþýðuflokks, svo tók framsókn við skækjuhlutverkinu og nú er það samfylkingin. Alltaf sama dæmið, stjórnarfar fyrir þá sem meira mega sín, einkavæða allt ala Bandaríkin (held að margir vakni upp við vondan draum þegar við verðum komin með al bandarískt heilbrigðiskerfi), gera hina ríku ríkari og svo videre. Rausa þetta nú bara vegna frétta í morgun um aðra hækkun stýrivaxta, þeir kunna ekkert annað þarna í Seðlabankanum virðist vera en að hækka þessa vexti og hvergi á jarðríki sem þekkist önnur eins vaxtapíning eins og á Íslandi, manni líður eins og maður búi í 3.heimsríki. Svo þessu tengt þá eru blöðin í morgun, bæði Mogginn og 24 stundir, að birta fréttir af kjörum kennara hér á landi og maður minn þvílíkur skandall. Grunnskólakennarar koma þar lang verst út, eru með lakari kjör en ALLAR sambærilegar stéttir. Munar t.d. á annað hundrað þúsund á meðal heildarlaunum framhaldskólakennarans og grunnskólakennarans og maður spyr hvernig hægt sé að réttlæta slíkan mun? Og framhaldskólakennarar eru alls ekki sáttir við sín kjör svo hvað megum við þá segja sem vinnum hjá sveitarfélögum landsins við að kenna ungviðinu?! Ykkur til fróðleiks þá eru meðalheildarlaun grunnskólakennara um 285 þúsund á mánuði en framhaldskólakennara eru um 405 þúsund. Leikskólakennari hefur eitthvað um 300 þúsund í heildarlaun minnir mig. Ekki ríkir nú bjartsýni í mínum huga í komandi samningum hjá grunnskólakennurum, sérstaklega þegar maður hefur í huga ástandið í þjóðfélaginu almennt.
Annars allt gott af okkur, erum smám saman að koma okkur fyrir í kytrunni okkar hér, þröngt mega sáttir sitja og allt það. Erian farin að vinna á fullu og krakkarnir ánægðir í skólanum. Reyndar var kennarinn hans Gumma að greinast með Parkinsonsveiki og hefur hætt störfum þetta skólaárið, skelfileg veiki þessi Parkinsons.
Gummi varð 11 ára þann 17.mars en þar sem dótið okkar var nú ekki komið þá varð það að bíða að halda afmælisveislu. En á morgun, föstudag verður úr því bætt og er Gummi búinn að bjóða strákunum í bekknum hans í afmælisveislu og hlakkar hann auðvitað mikið til.
Jæja, læt þetta raus duga að sinni.
Bestu kveðjur,
Einar Sveinn og familí
Bloggar | Breytt 28.4.2008 kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 5. apríl 2008
Góða helgi!
Bara kominn laugardagur, nammidagur hjá krökkunum, soccer Saturday hjá mér og vinna hjá Erian. Hún vinnur 2-2-3 vaktakerfi, alltaf frá 13-19 og á einmitt vaktir þessa helgina, gámahelgina!
Haldiði að gámsgreyið hafi ekki bara dúkkað upp hér í gær um kaffileytið og voðalega var hann farinn að sakna okkar, eða við hans alla vega. Tollurunum tókst sem sagt loksins að koma tilkynningunni frá A (Reykjavík) til B (Keflavík) eftir 3 daga hark, sennilega bara eitthvað vesen á þessum tölvum hjá þeim
Svo mátti ég hendast upp á toll hér við Leifstöð, fylla út eitthvað E-8 og svo tilkynnti fýlustrumpurinn þar mér að það vantaði innihaldslista, við hefðum látið hann hafa listann síðan við fluttum út. Ég sagðist bara redda þessu eftir helgi en eitthvað er manni að misskilja því ég á ekki innihaldslista síðan við fluttum út, bara þennan sem ég gerði núna. Svo á mánudaginn fer ég bara með þennan aftur, þá á hann þetta drasl í tvíriti.
Hvað um það, hér voru bæði pabbi og Aron ,sonur Jóhönnu hans pabba, fram að kvöldmat að hamast við að bera úr gámnum. Reyndum að hlífa þeim gamla við stigunum og burði en það gekk ekki alltaf vel, hann er svo þrjóskur! Það er svona þegar maður er kominn á 7 tugsaldur þá á maður nú ekki að djöflast upp og niður stiga með kassa og annað hafurtask, svo við reyndum að láta kallinn rífa niður úr gámnum og svo hentum við þessu upp. Aron var sannarlega betri en enginn í þessu, hentist hér um með drasl eins og spretthlaupari og blés ekki úr nös. Ekki má gleyma krökkunum, þau hlupu hér upp og niður með smotterí og munaði sannarlega um það, alltaf leiðinlegast þetta smádrasl.
Við fórum langleiðina með að tæma þetta í gær en það eru enn nokkrir kassar eftir, þvottavélin, frystiskápur, sófi og annað miður skemmtilegt að lyfta, stefnan tekin á að henda restinni inn í dag. En maður minn, plássið er lítið hér á bæ, verður púsl að koma þessu öllu fyrir hér innan dyra.
Jæja, manni er ekki til setunnar boðið, best að byrja að djöflast og henda inn eins og nokkrum tonnum af bókum
Góða helgi,
Einar Sveinn og familí
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Uþþuþvuzz!
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 1035
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar