Færsluflokkur: Bloggar

Framhald...gámavesen!

Miðvikudagskvöld og enn enginn gámur til okkar. Í eldsnöggu máli er þetta dæmi svona:

Mánudagur: hringi fyrir hádegi á í Samskip og fæ þá til að breyta komutilkynningunni, stóð á henni Reykjavík en breytti því svo hægt sé að tolla gáminn hér (bara til að flýta fyrir hélt ég, sleppa við að keyra í bæinn í tollinn þar).  Þessi breyting kostar litlar 4 þúsund krónur.  Ekki tókst þeim í Samskip að breyta þessu fyrr en kl var að slá i 4, temmilega búið að loka hjá tollheimtumanninum hér á Suðurnesjum þegar ég fékk nýja tilkynningu í email.

Þriðjudagur:  Erian fer í tollgæsluna hér á Suðurnesjum en deildarstjórinn þar var á fundi, Erian skilur eftir alla pappíra og skilur eftir gsm síma og heimasíma.  Ekkert heyrist frá tollaranum fyrr en rétt fyrir 4, þá er hringt frá tollgæslunni en Erian var að vinna og sá þetta bara í missed calls.  Hún hringir strax til baka, rúmlega 4, og viti menn, allir farnir heim, alla vega svaraði enginn.  Svo ekkert gerðist þann daginn.

Miðvikudagur:  Upp úr kl 9 heyrir Erian frá þessum tollara í Kefló, hann segir að komutilkynningin sé vitlaus, hún sé stíluð á Reykjavík.  Ég athuga málið, mín tilkynning er alla vega stíluð á Garðinn.  Erian hringir aftur, nær ekki í manninn fyrr en undir hádegi og fær þá að vita að við eigum að tala við Samskip, segja þeim að senda tollinum í Reykjavík nýja komutilkynningu þar sem móttökukstaður sé Garður og tollurinn þar muni svo áframsenda þetta til hans í Kefló. Erian hefur samband við Samskip.  Síðan eftir hádegi reynir Erian að hringja í tollarann aftur, fá að vita hvort þetta hafi allt skilað sér.  Ekki næst í tollarann, hann er á fundi og er á fundi til að verða hálffjögur.  Þá fær Erian að heyra að allt sé við það sama, tilkynningin hafi ekki borist til hans leiðrétt.  Ég hringi í Samskip, fæ að vita að þeir hafi í tvígang emailað tollinum í Reykjavík breytta tilkynningu en þeir hjá tollinum þar senda ekki þessa tilkynningu áfram til Kefló.  Samskip lofar að hringja í tollinn og athuga málið og láta mig vita fyrir lokun.  Nú er klukkan að ganga 8 að kvöldi og ég er ekki enn farinn að heyra neitt frá Samskipum og komutilkynningin er væntanlega enn í tvíriti hjá tollheimtumönnunum og faríseunum í Reykjavík.  Á meðan megum við bara bíða.

Á morgun rennur nýr dagur, vonum bara það besta, kannski aðgerðir vörubílstjóra á Reykjanesbrautinni valdi því að tollurinn í Reykjavík kemur þessu blaði ekki á réttan stað, með tölvupósti?!

Bestu kveðjur

Einar Sv, Erian og familí


Gámaraunir

Eins og einhverjir vita þá er ég tiltölulega nýkominn heim eftir 6 daga "sæluferð" til Danmerkur.  Fórum feðgarnir fyrir páska og máluðum og gengum frá íbúðinni okkar Erian í Harlev og síðast en ekki síst þá skelltum við öllu hafurtaski familíunnar í gám.  Nutum við góðrar og dyggar aðstoðar Maríu og familí á Rödlundvej 307, hefðum ekki náð að klára okkar verk nema með ómetanlegri hjálp frá þeim og svo fengum við auðvitað fría gistingu og gott uppihald á meðan dvöl okkar stóð hjá heiðurshjónunum Neville og Maríu.  Þetta var bölvuð törn en við náðum nú einum frídegi samt sem áður þar sem við gátum bara slappað af og kíkt aðeins í búðir (bara ekkert varið í að versla því gengið á krónunni alveg út á túni)

Hvað um það, gámurinn hefur nú farið sína leið yfir hafið og ég fékk tilkynningu frá Samskipum á föstudag að nú væri mér óhætt að hafa samband við Tollmiðstöðina og láta tolla draslið.  Þyrfti bara að koma með komutilkynningu, innihaldslista og fylla svo út eitthvað eyðublað.  Ég fór svo í það í dag að fá gáminn tollafgreiddan hér á Suðurnesjum og fékk það í gegn en verð að borga rúmar 4 þúsund krónur aukalega fyrir það því það verður víst að breyta komutilkynningunni.  Ég hafði því samband upp á Keflavíkurvöll, við tollheimtumenn þar, og brá mér heldur í brún eftir það símtal.  Var ég spurður að því hvort við værum búin að búa erlendis í meira en ár en því neitaði ég, sagði okkur vera fyrr á ferðinni heim en áætlað var í upphafi, hefðum bara náð tæpum 8 mánuðum.  Maðurinn spyr þá hvort ég geri mér grein fyrir því (með hroka að mér fannst í röddu) að við ættum ekki rétt á tollfrjálsum gámi.  Ég sagðist ekkert gera mér grein fyrir því, hefði bara ekki haft hugmynd um að ég YRÐI að búa 1 ár erlendis til að mega flytja aftur heim án þess að borga tolla af mínu gamla drasli.  Svo nú fer ég á morgun, með pappírana til tollheimtumannsins og faríseans og tek bara örlögunum eins og þau koma á minn kopp. En mikið djöfull finnst mér hart ef maður á að borga toll af eldgömlu og útjöskuðu drasli bara af því mér eða okkur datt í hug að flytja heim eftir 8 mánuði en ekki eftir 1 ár eða lengri tíma.  Ég er alveg með á hreinu hvaða dót er nýtt í gámnum, dót sem við keyptum áður en við fórum heim, ég á kvittanir fyrir þessu og allt í fína, við getum borgað toll af því ef við neyðumst til þess en af gamla draslinu, nei, ekki að ræða það.  En sjáum hvað setur, maður verður bara að taka svona rugli með æðruleysi, eins og öllu öðru, við gerðum okkur enga grein fyrir að þessu væri svona háttað, pældum bara ekkert í þessu, bara settum dótið í gáminn og fórum heim.

En mikið verður gott að fá gamla draslið aftur, hvort sem ég þarf að punga út fyrir því tugum þúsunda eða ekki, við erum búin að búa hér á annan mánuð nánast án alls svo allir verða voða fegnir að geta t.d. borðað matinn með alvöru hnífapörum, hvað skyldi ég borga mikinn toll af þeim?!

Bestu kveðjur

Einar Sv og familí
 


Lóla

Lóla

 

 

 

 

 

 

 

 

Áður en ég fer að blogga einhverja vitleysu hérna þá finnst mér tilvalið að kynna til sögunnar hana Lólu.  Lóla er 7 vikna blendingshvolpur, blanda af íslenskum, labrador og sennilega er eitthvað border colly í henni líka.  Við sáum auglýsingu fyrir nokkru síðan um að þessum hvolpum vantaði heimili og við sem erum búin að hafa hunda síðustu 7 ár stóðumst ekki mátið og fórum og kíktum á krílin.  Úr varð að við festum okkur þessa litlu tík og hún er að flytja til okkar nú um helgina, kannski í fyrra fallinu en eigandinn vill helst losna við greyið sem fyrst, allir aðrir hvolpar úr gotinu komnir á sín nýju heimili nú þegar.

Lóla kemur ekki í staðinn fyrir Söru og Mola sem við urðum því miður að skilja eftir í Danmörku og er þeirra sárt saknað.  En eins og ég sagði þá erum við bara ekki vön því að vera hundslaus og erum alveg gjörsamlega farin í hundana fyrir löngu!

Lóla er yndisleg, róleg yfirleitt, borðar, drekkur, sefur, pissar og kúkar; ekki ósvipuð litlu barni.  En hún er líka forvitin og fiktar í öllu, er nú þegar búin að naga nokkrar rafmagnskapla hérna en við náðum sem betur fer að stoppa það áður en hún nagaði allt í gegn.

Við fórum með hana í stuttan göngutúr núna áðan, bara strax eftir kvöldmatinn.  Hún vildi lítið labba, skalf eins og hrísla enda fimbulkuldi og varla hundi út sigandi í svona kulda, alla vega ekki svona litlum hvolpalingi.

Við vonumst til að ala Lólu vel upp, hún lofar góðu og vonandi að okkur takist að gera hana að góðum hundi.

Hundakveðjur, mínus eitthvað og norðan skítakuldi.

Einar Sv, Erian, börn og Lóla. 


Spurning?

Fann þessa hundgömlu bloggsíðu sem ég var með á árinu 2006 og fram á vor 2007.  Er svona að velta fyrir mér hvort ég eigi að flengja henni í loftið á nýjan leik, fæ stundum löngun til þess að blogga en spurning hvort það sé nóg til að halda uppi síðu.  En sjáum hvað setur, er alla vega búinn að virkja síðuna á nýjan leik, uþþuþvuzz!

« Fyrri síða

Um bloggið

Uþþuþvuzz!

Höfundur

Einar Sveinn Guðmundsson
Einar Sveinn Guðmundsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • golf og grill með kennurum 033
  • 101_0132
  • 17.júní 2004
  • 17.júní 2004
  • 562284 473572602656489 100000112607813 2014421 611042547 n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 1035

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband