Aftur kominn sunnudagur

Aftur kominn sunnudagur, vikan liðið eins og venjulega með sínu roki og sinni rigningu.  Djö... hvað veðrið getur verið þreytandi hérna á þessu skeri.

IMG_3685

Þetta er staðan á baðinu núna, allar flísar farnar af veggju og baðkar og innrétting komið á sinn eina rétta stað, öskuhaugana.  Fúkkalyktin á baðinu er hrikaleg,veggirnir eru sumstaðar þannig að það má taka þá í nefið, þeir eru bara ein drulla.

Ég er búinn að tala við smið sem kemur í næstu viku vonandi og rífur þetta allt frá og setur nýja veggi. 

Á meðan verðum við að gera okkur að góðu að tannbursta okkur í eldhúsvaskinum og labba svo til mömmu þegar það er farið að slá í okkur og allir orðnir sveittir og skítugir.  Verst er að sennilega verður baðið ekki klárt þegar Erian kemur að heimsækja okkur í október, en það er bara þannig og maður getur ekkert gert nema sætt sig við það.

Annars hefur þetta verið hefðbundið þessa helgina.  Bónus á föstudegi, nammidagur á laugardegi og fótbolti og heimalærdómur og þrif í dag, þarf t.d. að þvo rúmföt og annað skemmtilegt.

Fótboltasumrinu lauk loks hér heima í gær og næstum kominn október.  Verð að lýsa furðu minni á liði Keflavíkur sem náði þeim einstaka árangri að gjörsamlega gera í buxurnar í síðustu leikjum og henda frá sér meistaratitlinum.  Þarna fóru menn á taugum á meðan FH menn, sem eru jú vanir að vinna titla, héldu ró sinni og kláruðu mótið með stæl.  Betra tækifæri fá Keflvíkingar ekki til að verða meistarar og því miður rann það út í sandinn eins og svo oft þegar þeir hafa lofað góðu.

Annars fannst mér merklegt líka að sjá mitt lið á Skaganum tapa enn einum leiknum, nú 0-3 gegn nýliðum Fjölnis, lið sem Reynir í Sandgerði vann í fyrra á Sparisjóðsvellinum 3-0!!  Skaginn erndar lang neðstur og skömm að allri þeirra frammistöðu, lið með mjög marga reynda leikmenn innanborðs en því miður fyrir þá, algert hörmungarmót.

Krakkarnir eru allir í tónlistarskóla, Gummi lærir á trommur en hin á trompet.  En maður minn, þetta er rándýrt eins  og allt á þessu skeri, bara bækur fyrir þetta kosta um 10 þúsund kall þegar allt er komið fyrir þau 3.  En það er nauðslynlegt að leyfa börnunum að prófa sem flest, og vonandi finna þau eitthvað sem virkilega höfðar til þeirra og þau hafa hæfileika í.  Mín börn eru lítið fyrir íþróttir og þá er bara að leita áfram, hvar áhugasviðið liggur.

Jæja, ég læt þetta duga að sinni, það er allt í föstum skorðum og lífið gengur sinn vanagang.  Ég er aðeins byrjaður að undirbúa það að við flytjum til Erian í Köben í janúar, seldi fínan sófa sem við áttum í vikunni og næst er að reyna að selja sjónvarpið.  Búinn að kanna verð per bretti með Eimskip og það er í kringum 20 þúsund kallinn og á það getur maður troðið sem nemur 1-2 rúmmetrum.

Jæja, best að hita upp ryksuguna og starta vaskemaskinen, verkefni dagsins bíða.

Kveðjur bestar

Einar Sveinn og börn


Sunnudagur-mér leiðist

Sunnudagur til sælu sagði einhver en ég get ekki að því gert að ég er farinn að bíða bara eftir vinnuvikunni. 

Já, það er nú þannig að þá líður tíminn hratt því í vinnunni er nóg að gera og maður kemur heim útúrtaugaður og hálf geðveikur og þá er nú gott að eiga yndisleg og róleg börn heima sem eru eins og hugur manns.

Helgarnar eru eitthvað svo tómlegar þegar Erian er ekki hér, ég bara nýt þess ekki að vera í helgarfríi eins og þegar hún er heima en þetta venst nú örugglega eins og allt vont sem að venst. 

Það er ekki það að það er nóg að sýsla og stússast.  Krakkarnir þurfa auðvitað sína athygli og það þarf að sinna þeirra þörfum en auk þess þessa helgi þá stendur til að flytja múttu í hennar nýju híbýli hér steinsnar frá.  Svo sunnudagurinn fer að hluta í það, restina af honum eyði ég í heimanám með börnunum og kikka á einhvern fótbolta líka ef tími vinnst til, það er jú Man Jú-Chelsea í dag og það er alltaf ágætt að kíkja á þessi kúkalið.

Ég hafði í raun nóg fyrir stafni í gær líka.  Baðherbergið hjá okkur er í skralli, þar hefur lekið vatn inn á milli flísa og meðfram þéttilistum á baðkari árum saman og allt í raka þarna undir.  Ég þarf því að henda öllu út og láta laga 2 veggi hjá mér sem eru að grotna niður.  Ég byrjaði aðeins að rústa þessu niður í gær, hér er staðan á þessu í dag:

IMG_3680

Fallegt, ekki satt!  Ég hef sem sagt nóg að gera í þessu næstu daga og vikur, verð að græja þetta sem fyrst.

Svo komu hér pabbi og Jóhanna í kaffi í gær, færðu krökkunum ís sem þau voru alsæl með.

Svo var ég mjög sáttur við fótbolta helgarinnar því mínir menn í Leeds unnu 3 leikinn í röð og hafa nú ekki tapað í 7 síðustu leikjum og erum þarna alveg við toppinn, þetta verður okkar ár!

Nú Reynismenn, en ég hef alltaf sterkar taugar til þeirra þó Skaginn sé auðvitað alltaf mitt lið hér á landi, unnu ótrúlegan sigur á ÍR í lokaumferð 2.deildar og þessi sigur bjargaði Reyni frá falli í 3.deild.  Sigur Reynis enn merkilegri þar sem ÍR hafði ekki tapað leik í öllu mótinu og urðu meistarar með fáheyrðum yfirburðum, bravó Reynismenn svo bara að byggja á þessu næsta síson.

Þannig að ég ætti nú ekki að vera að kvarta, fullt að gera og helgin fljót að líða, veðrið reyndar hörmung dag eftir dag.  Erian verður komin heim áður en maður veit af, 19 dagar í að við fáum hana heim í 9 daga heimsóknHeart

En læt þetta duga að sinni, flutningarnir bíða og svo þarf ég að hreinsa flísaógeðið úr baðkarinu svo blessuð börnin fái sitt sunnudagsbað.

Kveðjur bestar.


Lofaði Erian að blogga!

Ég lofaði Erian að blogga smá eftir helgina, hún var jú hjá okkur þessa helgi en flaug úr hreiðrinu aftur á mánudaginn og er hennar afar sárt saknað.

En helgin var frábær og við vorum bara eins og ástfangnir unglingar hérna, say no more...hjónin á ströndinni með hundinn

Það var á þriðjudagskvöld að mig minnir að við vorum að spjalla á netinu og ég var eitthvað í bríaríi að kikka á icelandair og viti menn, fann þar bara ódýra ferð fyrir elskuna mína heim um helgina.

Krakkarnir fengu ekkert að vita, Erian lenti um miðnætti á föstudag svo börnin vöknuðu bara upp við það á laugardagsmorgni að mamma væri komin heim.  Svipurinn á þeim var óborganlegur, þau áttu ekki orð og trúðu ekki sínum eigin augum, Elísa gat bara stunið upp "mamma", "mamma".

Við höfðum það svakalega kósí hérna fram á mánudag, boðið uppá lambalæri á laugardegi og ýsu á sunnudeginum, svo það var veisla.

Eins og ég sagði þá nutum við hjónin þess vel að vera saman og við finnum svo vel hvað þetta er ekki óskastaða að vera svona aðskilin, hvorki fyrir okkur hvað þá börnin.  Svo nú er bara undirbúningur að hefjast í þá veru að sameinast í janúar, ég þarf að selja eitt og annað af húsgögnum og losna við hitt og þetta auk þess þarf ég víst að rífa allt af baðherberginu og henda því og skipta um allt.  Hér er nebblega raki á baðinu, ónýtar flísar og listar með baðkari og allt á kafi í vatni þarna undir baðkarinu og komin stæk fúkkalykt.  Svo nú er bara að bretta upp ermar, sækja um makalán hjá lín, græja baðherbergið og selja búslóðina, eða mest af henni alla vega, setja á 2 bretti eða svo, finna íbúð í Köben, segja upp vinnunni og svo bara auf wiedersehen thank you very much!

Svo ef ykkur vantar eitthvað til heimilisins, eða 7 manna bíl þá bara vera í bandi, fáið þetta á spott prís hjá mérTounge

En frábær helgi að baki og hversdagurinn heilsar með þvílíku skítaveðri að ma ma ma bara áttar sig ekki á þessu.  24 dagar þar til Erian kemur aftur og þá verður lengra stopp, alveg heilir 9 dagar og maður er farinn að telja niður.

Við söknum þín ástin mín, hlökkum til að sjá þig 10. okt.

Kveðjur bestar,

Einar Sveinn og ungarnir


Nennissuiggi

Já, ég er eiginlega ekki að nenna þessu bloggi, ekki í bili alla vega, ég spjalla jú við þessa 4 sem lesa bloggið nánast daglega á einn eða annan hátt.

Málið er nú líka að dagurinn er yfirleitt einhvern veginn svona hjá mér eftir að Erian fór út.

Vakna um hálf sjö, viðra hundinn, láta tíkina pissa og kúka.  Laga kaffi, legg á borð fyrir krakkana, ræsi með harðri hendi, sjá um að allir pissi, tannbursti og klæði sig. 

Les Fréttablaðið á toilettinu, græja sund og íþróttapoka, tek til nesti og út í bíl með allt heila klabbi og skúbba krökkunum svo í skóla og leikskóla.

Vinna til 4, yfirleitt, þar sem maður argast í annarra manna misskemmtilegum börnum.

Sæki Elísu á leikskóla, viðra hundinn, tek jafnvel stuttan göngutúr með tíkina, ef ég nenni og veður leyfir.

Matarstand, elda og leggja á borð, setja liðið í bað, reka í rúm um 9 og lesa í sögubókinni.

Loksins um hálf tíu er friður og ró og maður hefur alveg rúman klukkutíma útaf fyrir sig og þá bara nenni ég ekki að blogga, lái mér hver sem vill.

Lauma kannski inn helgarbloggi eina og eina helgi ef svo ólíklega vildi til að ég væri í stuði, en ef ekki þá bara spjöllumst við á msn eða hringjum.

Bestu kveðjur og takk til þeirra sem nennt hafa að kikka við,

Einar Sveinn, yfir og út.

Ps, Erian, ég elska þig, sakna þín robboslega mikið.


Klukk-vesen

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

  • Sementsverksmiðjan á Akranesi
  • ÁTVR-lager á Stuðlahálsi
  • Vopnafjarðarskóli
  • Grunnskólinn í Sandgerði

Það var svakalega gaman að vinna í Sementinu, fín vinna á vöktum en ég hef hangið lengst á þessu í Sandgerði, búinn að vera þar nær sleitulaust síðan 96.

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á

  • Star wars trílógían, gömlu myndirnar.
  • The fugitive með Harrison Ford
  • End of days með Swarzenegger
  • Who´s Harry Crumb með John Candy

þetta eru alla vega myndir sem ég get horft á oftar en einu sinni en ég var bara með þessar í huganum, er að gleyma auðvitað fullt af frábærum myndum, þetta er svo mikið sem maður hefur séð.

Fjórir staðir sem ég hef búið á

  • Seyðisfjörður
  • Akranes
  • Sandgerði
  • Garður

Akranes stendur uppúr í minningunni en það var líka frábært að búa á Seyðis sem krakki.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar

  • Roots
  • Cheers
  • House
  • Frasier

Allt frábærir þættir, Roots fjölluðu um Kunta Kinte sem var hnepptur í þrældóm ef einhver man ekki eftir þessum frábæru þáttum.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum

  • Svíþjóð
  • Leeds á Englandi
  • Finnland
  • Danmörk

Allt frábærir staðir en Finnland kom rosalega á óvart og ég mæli með Helsinki fyrir þá sem myndu aldrei láta sér detta í hug að kikka þangað, svaka flott borg.

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg
  • mbl.is
  • 245.is
  • newsnow.co.uk
  • fotbolti.net

Fernt sem ég held uppá í mat

  • reyktur lambahryggur 
  • hangikjöt
  • steiktur fiskur 
  • fiskibollur heimagerðar eins og amma Magga gerði þær

Hér í eina tíð voru pulsur/pylsur mitt uppáhald, fékk ekkert nema pulsur hjá ömmu Ellu ef ég bara bað um það!!!!

Fjórar bækur sem ég hef lesið oftar en einu sinni

  • Þar sem Djöflaeyjan rís
  • Jónas Hallgrímsson ævisaga
  • Gísla saga Súrssonar
  • Híbýli vindanna

ég les auðvitað Gísla sögu og Djöflaeyjuna með krökkunum í skólanum, aðrar sem ég les á hverju ári með þeim eru t.d. Laxdæla saga, Englar alheimsins, Gauragangur og Kjalnesinga saga.  Allt eru þetta frábærar sögur.

Þekki eiginlega enga bloggara en skora á Sissú að koma með þetta á sinni síðu, koma svo Sissú, þér finnst svona svo skemmtilegtGrin

 


Loksins nokkrar línur héðan....

Þá er sumarið búið, eða svo gott sem, skólarnir búnir að opna sínar stofur og allt að komast í eðlilegt horf eftir sumarfrí. 

Kannski er það svo að enginn nennir að kikka við á þessari síðu lengur þar sem óhóflega langt er á milli blogga en ég hef reyndar ærna ástæðu fyrir bloggletinni.  Þannig er málum á þessari tölvu háttað að ég er með þráðlaust lyklaborð og mús og ég get svarið það að lyklaborðið er að gera mig snældu vitlausan.  Skiptir engu hvort ég er nýbúinn að skipta um batterí á þessu drasli það er alltaf þannig að maður þarf að svoleiðis berja á þetta til að fá út úr þessu einhverja stafi á skjáinn.  Sem sagt, er að spá í að kaupa mér bara gamaldags lyklaborð bráðlega sem er ekkert þráðlaust dóterí, nenni bara ekki að vera með svona djönk.

Þann 21.ágúst hefði amma Magga orðið níræð og í tilefni þess örkuðum við Einar Valur, pabbi og Jóhanna uppá Skaga og settum niður nýjan legstein á leiði afa og ömmu.  Heiðurinn af þessu á Jóhanna sem sá til þess að legsteinn var keyptur og settur í staðinn fyrir gamla krossinn.  Veðrið var nú ekki það besta, rigndi töluvert á okkur en enginn er verri þó hann vökni eða hvað?!

flottur steinn

kuldaleg í rigningunni

myndarlegir bræður

 

 

Enn rignir.  Fór á völlinn í dag, Reynir gegn Egilsstaðabúum og ég verð að viðurkenna að ég fór heim löngu áður en flautað var til leiksloka þar eð ég var orðinn rennblautur,kaldur og illa haldinn eftir að hafa staðið þarna í einn og hálfan tíma.  Staðan var jöfn 2-2 þegar ég lét mig hverfa og 20 mín eftir; Reynismenn léku þá á móti hvössum vindi og regnið barði á þeim líka og þar að auki höfðu þeir ekki komist út úr eigin vítateig allan hálfleikinn.  Ég sá fram á að Hattarmenn myndu nú örugglega setja fleiri á Reynismenn miðað við veður og því best að drífa sig heim í þurr og hlý föt.  En viti menn, eins og þruma úr langt í frá heiðskýru lofti komust Reynismenn loks út úr eigin vítateig þegar 5 mín voru eftir og skoruðu sigurmarkið, en ég missti auðvitað af því og var það bara hið besta mál, gríðar mikilvægur sigur hjá Reyni sem eru að berjast við að halda sér í deildinni.

Nenni nú ekki að blogga nein ósköp um handboltann, það er allt á hvolfi hér á landi og rúmlega það og er það bara hið besta mál.  Maður verður snemma á fótum á sunnudagsmorgni og mikið djö.. væri það ljúft að landa bara gullinu, fyrstir Íslendinga til að vinna ól-gull.  Vonum það besta, strákarnir eiga alveg eins að geta unnið Fransmenn eins og alla hina, því ekki?

Að lokum þetta.  Erian fer eftir viku og það eru blendnar tilfinningar í gangi með það.  Við erum að skoða möguleikann á að sameina familíuna í Dk um áramótin, eigum alveg möguleika á að sækja um makalán hjá LÍN frá áramótum.  Ég vonast til að geta farið í stutta heimsókn til Erian í Köben í lok október en þá er löng helgi í skólanum hjá mér.  Svo eru líkur á að ég mæti í viðtal í skóla þar í borg sem heitir Copenhagen international school, og þá til viðtals vegna hugsanlegs starfs þar.  Þeir auglýstu í vor eftir aðstoðarkennurum og boðuðum mig til viðtals 13.ágúst síðastliðinn.  Það voru allt tímasetningar sem ekki hentuðu mér en þeir vilja fá mig í viðtal ef ég er á ferðinni, þá er það frá ef ske kynni að aftur losnaði starf þarna.  Sjáum hvað setur, það er ekkert voða sniðugt að vera aðskilin í of langan tíma, sé það fyrir mér að þetta þolist nú fram til áramóta en eftir það yrði það strembið fyrir alla aðila.

En nú nenni ég ekki að skrifa meira á þessu bjévaða lyklaborði, ég er alveg að verða vitlaus á að henda þessu hérna inn og ekki smuga að ég nenni að lesa þetta yfir til að leiðrétta stafsetningar og innsláttarvillur og hana nú, sagði hænan.

Kveðjur bestar úr rigningunni.


Ingimar fertugur!

Ingimar og Elísa

Elsku frændi, við óskum þér hjartanlega til hamingju með daginn, vonandi er frábær dagur fram undan, allt er fertugum fært!

Krakkarnir biðja sérstaklega vel að heilsa uppáhaldsfrænda sínum.

Kveðjur og knús,

Einar Sveinn, Erian og börn.


Nýjar myndir

Erian er búin að setja inn nýjar myndir á myndasíðuna sem við erum með hjá 123.is

Kveðjur bestar


Hann á afmæli í dag!

IMG_0547

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi, innilegar hamingjuóskir á afmælisdaginn frá öllum hér á Silfurtúninu.  Kíkjum í kaffi á eftir!

Kveðjur bestar, Einar Sveinn, Erian og börn.


Verslunarmannahelgi

3.ágúst í dag, sunnudagur og rólegt hér á bæ að vanda.

Við fórum ekkert þessa verslunarmannahelgi fremur en áður, höfum aldrei lagst í ferðalög þessa helgi, einhvern veginn með þá tilfinningu að þetta sé ein versta helgi ársins til að vera á ferðinni, er meira fyrir rólegheitin en ys og þys eins og er á svona helgi.

Við gerðum heiðarlega tilraun til að tjalda í garðinum okkar á föstudaginn en eftir klukkutíma puð þá bara pökkuðum við draslinu saman og gáfumst upp.  Þetta bara vildi ekki gera sig, við erum svo sem ekki vanir tjaldarar en einhvern veginn fannst okkur að það vantaði einn fullorðinn í viðbót til að græja þetta,helst einhvern sem hefur vit á svona í þokkabót! 

í gær örkuðum við svo í IKEA, nýja verslun í Hafnarfirði, eða er það Garðabær, hef bara ekki hugmynd hvort er!?

Þetta var bara eins og að vera kominn í IKEA í Aarhus, alveg nákvæmlega eins bygging, sama teikning og alles.  Við vorum að leita okkur að fataskáp því það eru engir fataskápar í höllinni.  Fundum eitt kvikindi sem okkur leist á en reyndar eru hurðarnar á þetta ferlíki ekki til í augnablikinu svo við þurftum að láta panta þær fyrir okkur.  Fáum sem sé skápinn sendan fyrst í næstu viku en hurðarnar seinna, sækjum þær þá bara þegar þar að kemur.  Verður nú lúxus að geta sett fötin í almennilega fataskáp, alger munaður.

Í dag er svona hefðbundinn sunnudagur.  Frænka Erian frá Filippseyjum er að koma um miðjan dag, er sú að fara að vinna á Heilsugæslu Suðurnesja sem hjúkka. Við erum búin að dunda okkur við að fara með drasl fyrir hana í íbúðina sem hún fékk á vellinum, lítil stúdíóíbúð í einni hermannablokkinni. 

Erian búin að panta flugið til Köben, fer laugardaginn 30.ágúst svo það styttist í þessu.  Sjálfur byrja ég að vinna 15.ágúst sem reyndar er föstudagur svo maður byrjar á einum degi og svo helgarfrí, ekki slæmt það.

Jæja, læt þetta duga að sinni, vona að allir séu í stuði á þessari mestu sukkhelgi ársins, liggur við að annar hver maður á klakanum sé að búsa og er það svo sem í fínu lagi, ef fólk bara fer vel með veigarnar.

Kveðjur bestar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Uþþuþvuzz!

Höfundur

Einar Sveinn Guðmundsson
Einar Sveinn Guðmundsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • golf og grill með kennurum 033
  • 101_0132
  • 17.júní 2004
  • 17.júní 2004
  • 562284 473572602656489 100000112607813 2014421 611042547 n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 821

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband