Enn í kóngsins Köbenhavn

Þá er komið laugardagskvöld og ég enn í góðu yfirlæti hér í Köben.

Í gær, föstudag, fórum við hjónin í bæinn.  Fórum snemma af stað eða um 1 leytið og fyrst var förinni heitið til Hellerup þar sem ég fór í viðtal í skóla þar sem heitir Copenhagen international school.  Þetta er skóli sem útlendir diplómatar og bissnessmenn senda börn sín í og eru skólagjöld himinhá, held þetta sé dýrasti einkaskóli landsins.

Ég sótti um vinnu þarna í sumar sem aðstoðarkennari en dró umsóknina til baka.  Við töluðum samt um að halda kontakti og þegar ég ákvað að fara í stutta heimsókn hingað til Erian þá setti ég mig í samband við skólann aftur og ákveðið var að ég kæmi í stutt viðtal ef ske kynni að það myndi eitthvað losna þarna í framtíðinni.  Það er sem sagt ekkert laust í augnablikinu en alltaf vantar afleysingafólk og það er vel möguleiki að komast að í slíkt.

Viðtalið gekk annars vel og mér líst mjög vel á skólann.  Vinalegt fólk þarna og konurnar sem tóku viðtalið við mig ætla að láta umsjónarmann á miðstigi hafa alla mína pappíra og svo á ég bara að láta vita þegar ég er fluttur með allan barnaskarann til Erian hér í Köben.  En maður verður bara að hafa alla anga úti í atvinnuleitinni, ætla að athuga með störf á leikskólum og annað sem kemur til greina.  Alla vega er ljóst að ég verð að fá vinnu nánast um leið og ég lendi því ekki lifum við á námslánunum hennar Erian eins og mál standa núna með krónuna.

Við tókum svo góðan labbirúnt í bænum í gær og fórum m.a. á kínverskan veitingastað í hlaðborð og var einkar gott að borða þarna og við södd langt fram eftir kvöldi.  Reyndar var ekkert spes veður í labb í gær því það mígrigndi og vorum við eins og hundar á sundi þegar heim kom um 6 leytið; höfðum þá verið á ferðinni 5 og hálfan tíma eða svo.

Í dag fórum við svo aftur á stjá og tókum metróinn um hádegisbil niður á Kongens Nytorv.  Löbbuðum okkur svo niður á Nyhavn og stoppuðum á ítölskum veitingastað og fengum okkur að borða.  Dýrt var það maður minn ef maður miðar við ónýta íslenska krónu en hverrar krónu virði, alveg einstaklega góður matur þarna. 

Á næsta borði við okkur voru Svíar í eldri kantinum og voru nokkuð við skál (reyndar með ólíkindum hvað maður verður var við marga Svía í bænum, mér fannst ég heyra sænsku oftar en dönsku mest megnis í dag, Svíar út um allt bókstaflega).  Einn í þeirra hópi var hávær og síblaðrandi og svo skellti hann uppúr endalaust með þessum líka hrossahlátri.  Svo tók nú steininn úr þegar sá háværi fór að gera grín að Íslendingum og íslenskri krónu því hann var að gantast við þjóninn um að borga með íslenskum krónum og þótti þetta stand á okkur allt rosalega fyndið.  Já, gott að okkar auma ástand létti sumum lund; ekki það við eigum þetta sennilega bara skilið, altso að það sé gert grín af okkur út í eitt vegna þessara aumu útrásarmanna sem sett hafa land og þjóð á hausinn.

Reyndar gerðist það líka á miðvikudagskvöldið þegar við Margeir fórum á Hvítan að létt grín var gert að þessu íslenska ástandi.  Við fórum á Hviids vinstue sem sagt og á barinn og pöntum 2 kók!  Einn góðglaður Dani var við barinn spurði hvort við værum Íslendingar sem við játtum og þá kom hjá baunanum, "eruð þið vissir um að þið hafið efni á að setja klaka út í kókið" og ég verð nú að viðurkenna að þetta fannst mér fyndið og við Margeir hlógum eins og vitleysingar að þessu og bauninn hló líka vel og innilega.

Svo þessi mál heima eru á flestra vitorði að manni finnst, enginn að hreyta neinu í mann, bara verið að gera grín að okkar auma standi og maður verður bara að hafa húmor fyrir því.  Svíinn fulli fór bara í taugarnar á manni því hann var fullur og leiðinlegur, annars hefði ég kannski séð spaugilegu hliðina á þessu hjá honum.

Hvað um það, við röltum svo að Amalienborg og tókum nokkrar myndir, kíktum í kirkju og svo röltum við aftur niður á Nýhöfn og fengum okkur cappucino.

Svo röltum við Strikið og kíktum í búðir og maður minn það er sko allt dýrt hér en búðirnar eru flottar og mikið af fólki í bænum, mikið mannlíf og gott veður í þokkabót.  Fórum i ísbúð þar sem bara er seldur Ben and Jerry´s ís, og ekki klikkaði ísinn.

Á heimleiðinni stoppuðum við svo í Fötex og keyptum það sem okkur vantaði í ísskápin.  Vorum svo að enda við þessa fínu nautasteik sem Erian eldaði, alveg hreint ljúffengur dinner og nú liggjum við bara á meltunni og ætlum að hafa það kósí og huggó fyrir framan imbann það sem eftir lifir kvölds.

Kveðjur bestar úr landi baunans,

Einar Sveinn og Erian


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já maður verður að taka gríni og blása á þetta ástand. En ég er ánægð hvað þið hafið það gott þarna úti turdildúfurnar mínar, vona svo að þú fáir vinnu sem fyrst í kóngsins Köbenhavn. Knús á ykkur Sissú

sissú 26.10.2008 kl. 01:26

2 Smámynd: María Guðmundsdóttir

já vonandi mígrignir ekki á ykkur i dag eins og okkur  ekki hundi út sigandi...en thid getid thá hygged jer indenfor i dag eller hva??  

María Guðmundsdóttir, 26.10.2008 kl. 07:59

3 identicon

Takk fyrir bloggið. Verðum bara að brosa út í annað í þessu ástandi,vonandi kemur betri tíð með blóm í haga. Danir fara nú ekki alveg varhluta af þessu ástandi í heiminum. En gott að þið hafið það bara notalegt . Allt gott héðan,veðrið ágætt en frekar kalt. Bestu kveðjur úr Njarðvík.

Pabbi 26.10.2008 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Uþþuþvuzz!

Höfundur

Einar Sveinn Guðmundsson
Einar Sveinn Guðmundsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • golf og grill með kennurum 033
  • 101_0132
  • 17.júní 2004
  • 17.júní 2004
  • 562284 473572602656489 100000112607813 2014421 611042547 n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 821

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband